Vill minnisvarða um skákeinvígið í Laugardal

Lilja Alfreðsdóttir mætti á Hótel Natura í dag.
Lilja Alfreðsdóttir mætti á Hótel Natura í dag. mbl.is/Eggert

Áformað er að reisa minnisvarða í Laugardalnum um skákeinvígi aldarinnar sem fór fram í Laugardalshöll milli Bandaríkjamannsins Bobby Fischers og Sóvétmannsins Boris Spasskís fyrir um 50 árum. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu en einvígsins var minnst í sal Skáksögufélagsins á Hótel Natura í dag.

Einvígið er af mörgum talið meðal hápunkta kalda stríðsins en skákmennirnir tveir tefldu röð skáka í Reykjavík í júlí og ágúst árið 1972.

Guðni Ágústsson tók til máls.
Guðni Ágústsson tók til máls. mbl.is/Óttar

Sérstök afmælishátíð í október

„Einvígi Fischers og Spasskís um heimsmeistaratitilinn í skák árið 1972 í Reykjavík hafði meiri áhrif heldur en nokkur óraði fyrir, bæði í heiminum öllum en ekki síst hér á Íslandi. Það var ekki aðeins að Ísland og Reykjavík urðu þekkt heldur varð gróskan í skákheiminum meiri en nokkur gat vænst,“ er haft eftir Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra í tilkynningu en hún ávarpaði viðstadda á Hótel Natura í dag.  

Ásamt Lilju voru Einar Þorsteinsson, forseti borgarráðs, og Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, viðstaddir.

Einar Þorsteinsson lét sig ekki vanta.
Einar Þorsteinsson lét sig ekki vanta. mbl.is/Óttar

Á viðburðinum greindi Lilja frá áforum ríkisstjórnarinnar um að halda opna samkeppni um gerð minnisvarða um einvígið. Yrði hann reistur í Laugardalnum.

Þá verður tímamótanna einnig minnst með vitundavakningu um skák í skólum landsins, málþingi og sérstakri afmælishátíð sem nær hápunkti dagana 25.-30. október þegar fram fer heimsmeistaramótið í Fischer-slembiskák.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert