Aldrei fleiri sótt Októberfest

Reykjavíkurdætur komu fram á hátíðinni.
Reykjavíkurdætur komu fram á hátíðinni. Ljósmynd/Aðsend

Alls sóttu um fimm til sex þúsund manns hátíðina Októberfest sem Stúdentaráð Háskóla Íslands stendur fyrir ár hvert. Hátíðinni lauk núna í gær en hún stóð yfir í þrjá daga. Skipuleggjandi segir hátíðarhöld hafa heppnast vel en aldrei hafa jafnmargir sótt hátíðina.

„Það gekk ótrúlega vel. Hún hefur aldrei verið stærri og aldrei gengið betur. Fólk mætti snemma á svæðið og hátíðinni lauk fyrr en vanalega. Það virðist vera ánægja með það meðal hátíðargesta og vonandi nágranna líka,“ segir Rebekka Karlsdóttir, forseti Stúdentaráðs, í samtali við mbl.is.

Bætir hún við að Stúdentaráð hafi fengið fáar hávaðakvartanir frá nágrönnum í ár. 

Síðustu tvö ár hefur hátíðin ekki verið haldin vegna heimsfaraldurs Covid-19. Því voru fjölmargir háskólanemar að sækja hátíðina í fyrsta skipti, jafnvel nemar á þriðja ári sem ljúka háskólanámi sínu í vor.

Fjölmargir sóttu hátíðina um helgina.
Fjölmargir sóttu hátíðina um helgina. Ljósmynd/Aðsend

Frábært að allir geti komið saman

Hátíðin, sem er eins og segir á vegum Stúdentaráðs Háskóla Íslands, er opin öllum sem hafa náð tuttugu ára aldri. Þó gátu yngri nemendur háskólans sótt viðburðinn. Til að koma í veg fyrir það að þeir gætu keypt áfengi á hátíðinni fengu þeir annars konar hátíðararmbönd en þeir sem höfðu náð áfengiskaupaaldrinum. 

Þrátt fyrir að vera opin öllum voru flestir hátíðargestir nemar við Háskóla Íslands eða Háskólann í Reykjavík.

„Við höfum lagt upp með að þetta sé fyrir alla háskólanema. Það er frábært að koma öll saman, óháð því hvaða háskóla við erum í, að við getum skemmt okkur saman í Vatnsmýrinni sem er einmitt mitt á milli HÍ og HR,“ segir Rebekka. 

Rebekka og Isabel kynntust á Októberfest árið 2018. Nú á …
Rebekka og Isabel kynntust á Októberfest árið 2018. Nú á fimmtudaginn opnuðu þær saman hátíðina. Ljósmynd/Aðsend

Forsetarnir kynntust á Októberfest

Venja er fyrir því að forseti Stúdentaráðs opni hátíðina. Að þessu sinni opnaði Rebekka, forseti ráðsins, hátíðina ásamt Isa­bel Al­ej­andru Díaz, fyrrverandi forseta. Isabel gegndi embætti forseta á árunum 2020-2022 þegar heimsfaraldur Covid-19 reið yfir.

„Ég bauð Isabel að koma með mér af því að hún auðvitað sat í tvö ár en fékk ekki að halda Októberfest. Það var mjög skemmtilegt og ég veit að henni þótti vænt um það. Það var einstaklega skemmtilegt því að við Isabel kynntumst á Októberfest árið 2018. Þannig að það var gaman að opna hátíðina saman fjórum árum síðar,“ segir Rebekka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert