„Ég var með mikla fordóma fyrir fíknisjúkdómum almennt, hvað þá matarfíkn. Ég leit ekki á þetta sem raunverulegan sjúkdóm heldur græðgi og stjórnleysi, ég hélt að enginn gæti verið með slíkan sjúkdóm, hvað þá ég sjálf. Ég var með sömu viðhorf gagnvart alkóhólisma, ég skildi ekkert í þeim aumingjaskap að fólk væri að eyðileggja líf sitt frekar en að setja tappann í flöskuna,“ segir hin 28 ára knattspyrnukona Lára Kristín Pedersen, en hún sendi nýlega frá sér bókina Veran í moldinni, þar sem hún sýnir inn í hugarheim matarfíkils í leit að bata, en hún hefur glímt við matarfíkn frá unga aldri.
„Ég var mjög lengi að samþykkja að þetta væri fíknisjúkdómur og ég efaðist ekkert um að ég gæti haft stjórn á hlutunum. Ég var með þetta karllæga hugarfar að ég gæti bara tekist á við þetta með hörku og miklum viljastyrk, reddað þessu,“ segir Lára Kristín og bætir við að hún hafi smám saman farið að velta fyrir sér hvort þetta gæti mögulega verið fíkn, en ekki bara lélegur viljastyrkur.
„Þegar ég var 23 ára var ég orðin það örvæntingarfull að ég samþykkti að fara í viðtal hjá Matarfíknimiðstöðinni. Þar fékk ég greininguna að ég væri með matarfíkn, en þó svo að ég hafi séð að þar var hægt að fá lausn við þessum vanda var ég lengi að samþykkja fyllilega og trúa því að þetta væri fíknisjúkdómur.“
Núna, fimm árum síðar, segir Lára Kristín að sér finnist hún loksins komin á þann stað að hún standi miklu betur með sínum sjúkdómi, sérstaklega eftir að hún opnaði sig um þetta með bókinni sinni.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 1. september.