Nokkur hiti var í mannskapnum aðfararnótt sunnudags á Akureyri og þurfti lögregla að aka nokkrum ölvuðum einstaklingum heim sem sáu fótum sínum ekki forráð eftir næturlíf bæjarins.
Í tilkynningu lögreglunnar á Norðurlandi eystra kemur fram að alls liggi 177 bókanir fyrir í dagbók hennar frá föstudagsmorgni og til sunnudagsmorguns, og að fjórir hafi gist fangageymslur.
Þrír vegna ölvunar og hegðunar sem ekki er til eftirbreytni og einn vegna hótana, ráns og brota gegn lyfjalögum og vopnalögum.
Þá hafði lögregla afskipti af tveimur mönnum við Bogann í gær vegna gruns um fíkniefnamisferli.
Ekki fundust fíkniefni á mönnunum en annar mannanna var með hnúajárn og voru þau haldlögð. Var maðurinn kærður fyrir vopnalagabrot.
Um helgina tók lögregla einnig þátt í að aðstoða við leit að stúlku sem hafði strokið frá vistheimili á vegum barnaverndar bæði á föstudag og laugardag.
Stúlkan fannst í bæði skiptin og var komið á vistheimilið.