„Liðið hefur æft mjög mikið fyrir þetta og hafa æfingar farið fram í Reykjavík, á Akureyri og Hvolsvelli,“ segir Jóhannes Geir Númason, foringi landsliðs kjötiðnaðarmanna, í samtali við mbl.is en liðið er nú statt á heimsmeistarakeppninni í kjötskurði, World Butchers Challenge, í Sacramento í Kaliforníu þar sem keppni lauk í gær og verða úrslit tilkynnt um klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma.
„Við erum enn að átta okkur á að það er loksins komið að þessu,“ segir Jóhannes, „landslið kjötiðnaðarmanna var stofnað haustið 2018 þannig að ferlið hjá okkur hefur verið fjögur ár,“ heldur hann áfram en keppnin sem til stóð að halda árið 2020 féll vitaskuld niður vegna heimsfaraldursins.
„Þetta er frábær hópur, vel samstilltur og umfram allt skemmtilegur og ekki má gleyma því að fyrirtækin í bransansum hafa stutt vel við bakið á okkur,“ segir liðsforinginn og kveður undirbúningsferlið hafa verið „langt og strangt hjá liðinu og okkur sem störfum í kringum það“, bætir hann við og segir enn fremur frá því að heimildarmynd um ævintýri þeirra kjötskurðarmanna sé í deiglunni en með þeim vestanhafs eru bræðurnir Franz Ágúst og Brynjar Snær Jóhannessynir sem koma að gerð myndarinnar. „Þeir hafa fylgt liðinu gegnum æfingaferlið og eins hér úti í keppninni,“ útskýrir Jóhannes.
Vefsíðan veitingageirinn.is hefur fjallað um heimsmeistarakeppnina og kemur þar fram að af þrettán þátttökuþjóðum sé Ísland eina Norðurlandið sem sendir lið til Kaliforníu. Játaði Jóhannes í spjalli á síðunni að honum hefði ekki litist á blikuna að lenda á bandarískum flugvelli með fullar töskur af hnífum og handsögum auk þess sem öxi er einnig hluti af búnaði liðsins.
„Ég mun pottþétt svitna í lófunum í tollinum þegar þeir fara að skoða í töskurnar okkar,“ sagði Jóhannes við veitingageirasíðuna auk þess sem landkynning er að sjálfsögðu hluti af ferðalaginu. Grípum hér niður í frásögn liðsforingjans:
„Hver keppandi fer út með sína hnífa. Við munum fara út með okkar bakka til að setja vörurnar í, mareneringar og krydd. Einnig tökum við með okkur út hraun af Suðurnesjunum fyrir eldgosaþemað okkar. Ég er að spá í að setja gervilimi í töskurnar til að reyna að létta stemminguna ef ég verð stoppaður í tollinum þarna úti. Ég mundi giska á að við séum að ferðast með nokkur hundruð kíló af áhöldum og keppnisbúnaði,“ lét Jóhannes hafa eftir sér.
Er þetta í fyrsta skipti sem íslenskir kjötiðnaðarmenn senda lið á heimsmeistarakeppnina sem fór þannig fram að öll þrettán liðin fengu hálft naut, hálft svín, heilt lamb og fimm kjúklinga til að vinna með.
„Við eigum svo að vinna þessa skrokka á þremur og hálfum tíma til að búa til fjölbreyttar vörur, girnilegar vörur og auðvitað góðar vörur. Við erum sannfærðir um að við séum flottir og samkeppnishæfir á þessu heimsmeistaramóti. Öll liðin fá sömu eða svipaða þyngdir af skrokkum,“ útskýrir Jóhannes.
Skipan íslenska skurðgengisins og landsliðsins er eftirfarandi:
Friðrik Þór Erlingsson frá Kjöthúsinu er fyrirliði
Jón Gísli Jónsson frá Kjötkompaníinu er úrbeinari
Róbert Ragnar skarphéðinsson frá Norðlenska á Húsavík er úrbeinari
Bjarki Freyr Sigurjónsson frá Sláturfélagi Suðurlands er pylsugerðarmaður
Jóhann Sigurbjarnarson frá Kjötkompaníinu annast fyllingar og skreytingar
Kristján Hallur Leifsson frá Kjötkompaníinu er útlitshönnuður kjötborðs