Líklega aldrei meiri aðsókn

Verkefnastjóri Ljósanætur segir hátíðina í ár líklega þá fjölsóttustu í …
Verkefnastjóri Ljósanætur segir hátíðina í ár líklega þá fjölsóttustu í sögu hennar sem rekja má aftur til ársins 2000. Meistari Morthens hér í kunnuglegri stöðu á sviðinu með gítarinn. Ljósmynd/Aðsend

Þetta er búið að ganga alveg frábærlega vel og líklega er þetta mesta þátttaka frá upphafi myndi ég halda,“ segir Guðlaug María Lewis, verkefnastjóri menningarmála í Reykjanesbæ, um hátíðina Ljósanótt sem hófst þar í bænum á fimmtudaginn og lýkur í kvöld.

Guðlaug segist reyndar ekki hafa neinar tölur á hraðbergi en miðbærinn hafi verið stappfullur af fólki í allan gærdag sem var hápunktur Ljósanætur. „Maður horfði bara yfir mannhaf frá klukkan tvö og fram eftir öllu kvöldi, þátttakan var ótrúlega mikil enda búnir að vera hér flottir viðburðir frá fimmtudegi, þá opnuðum við ýmsar sýningar sem heimafólk var duglegt að sækja,“ heldur verkefnastjórinn áfram.

Veður setti engin strik í reikninginn í ár eins og …
Veður setti engin strik í reikninginn í ár eins og það gerir annað slagið á íslenskum útihátíðum. Ljósmynd/Aslanbek Magamadov

Á föstudag var svo blásið til heilmikillar kjötsúpuhátíðar en þá bauð Skólamatur gestum og gangandi upp á kjötsúpu og af fjölda annarra viðburða sem Guðlaug greinir frá má nefna heimatónleika í gamla bænum á föstudagskvöldið.

„Þeir fóru þannig fram að í gamla bænum okkar í Keflavík voru listamenn í átta húsum og fólk fór á milli húsa og hlustaði á þá. Þetta var keyrt tvisvar yfir kvöldið og var íbúaframtak,“ heldur Guðlaug áfram og segir einnig frá nýjum dagskrárlið Ljósanætur í ár, útitónleikunum Í holtinu heima sem haldnir voru á grassvæði milli tveggja íbúðagatna bæjarins en þar spiluðu meðal annars Bjartmar og Bergrisarnir og Herbert Guðmundsson.

Heilt æviskeið niður Hafnargötu

Segir Guðlaug veðrið hafa leikið við Suðurnesjamenn yfir hátíðina og ekki hafi spillt fyrir að norðurljós dönsuðu á himni er skyggja tók. Gærdagurinn var aðaldagur Ljósanætur og dagskráin þéttskipuð. Nefnir Guðlaug svokallaða Árgangagöngu þar sem fólk safnast saman eftir fæðingarárum við húsnúmer sem samsvara fæðingarárinu.

Flugeldasýningin lýsti upp næturhúmið í gærkvöldi en það gerðu norðurljós …
Flugeldasýningin lýsti upp næturhúmið í gærkvöldi en það gerðu norðurljós einnig og settu svip á hátíðina. Ljósmynd/Aslanbek Magamadov


„Þá má sjá heilt æviskeið streyma niður Hafnargötuna, þau yngstu byrja fyrst og svo bætist alltaf nýr og nýr árgangur í gönguna og ég held að ég hafi aldrei séð eins góða þátttöku í göngunni,“ segir Guðlaug og kveður gærkvöldið hafa verið eins vel heppnað og nokkur kostur var á, stórtónleikar á útisviðinu og flugeldasýning.

Í dag er svo lokadagur Ljósanætur. Allar sýningar eru opnar auk þess sem ýmsir viðburðir fara fram, svo sem tónleikar í Höfnum með Lay Low og Elízu Newman auk þess sem Bítlamessa verður haldin í Keflavíkurkirkju í kvöld, enda Keflavík löngum kölluð Bítlabærinn á öldinni sem leið.

Ekki aftur snúið

Ljós­anótt er nú hald­in í 21. skipti en hún var fyrst hald­in árið 2000 þegar listaverkið Ljósin á Berginu eftir Steinþór Jónsson hótelstjóra voru tendruð á Kefla­vík­ur­berg­inu. „Í kring­um þann viðburð varð nafnið Ljós­anótt til, út frá þess­um ljós­um, og menningarnefnd gerði litla menn­ing­ar- og fjölskyldudag­skrá yfir einn dag og síðan hef­ur ekk­i verið aft­ur snúið. Þetta tókst svo vel að ákveðið var að gera þetta aft­ur árið eft­ir og þá í fleiri daga,“ seg­ir Guðlaug sem komið hef­ur að hátíðinni með ein­hverj­um hætti frá 2008 en er nú í fyrsta sinn verk­efna­stjóri henn­ar.

Hátíðarskap og stemmning í gamla Bítlabænum um helgina.
Hátíðarskap og stemmning í gamla Bítlabænum um helgina. Ljósmynd/Aslanbek Magamadov
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert