„Ég bíð bara á hliðarlínunni og legg jafnaðarmönnum allt til sem ég get. Það er bara einfaldlega þannig, en ég hef engin áform um þetta. Ef ég get hjálpað til þarna eða annars staðar þá geri ég það,“ segir Guðmundur Árni Stefánsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, spurður hvort hann íhugi framboð til varaformanns Samfylkingarinnar.
„Maður segir aldrei aldrei í pólitík,“ bætir Guðmundur Árni við.
Líkt og mbl.is greindi fyrst frá sækist Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi eftir endurkjöri.
Talið er líklegt að Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, verði næsti formaður flokksins, en hún er enn sem komið er ein í framboði. Því telja sumir Samfylkingarmenn að karlmann þurfi í stöðu varaformanns til að tryggja breidd í forystunni. Þá skipti einnig máli að varaformaðurinn sé ekki úr borginni, en Kristrún er þingmaður flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður og Heiða Björg situr í borgarstjórn Reykjavíkur.
Auk Guðmundar Árna hefur Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ, verið nefndur sem mögulegur frambjóðandi. Friðjón vildi ekki tjá sig um málið er mbl.is spurði hann hvort hann hygðist bjóða sig fram.