Þrír hnífar fundust í bílnum

Mikil ölvun var í miðbæ Reykjavíkur í gær, segir í …
Mikil ölvun var í miðbæ Reykjavíkur í gær, segir í dagbók lögreglu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fann þrjá hnífa í nótt þegar leitað var í bíl hjá einstaklingi sem grunaður er um fíkniefnalagabrot. Viðkomandi á von á kæru fyrir brot gegn vopnalögum.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. 

Talsverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Mikil ölvun var í miðbænum og voru margir handteknir vegna aksturs undir áhrifum áfengis- eða vímuefna. Fram kemur í dagbókinni að mat varðstjóra sé að verkefnum sé að fjölga um helgar.

Að minnsta kosti 10 ökumenn voru stöðvaðir í akstri, grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis- eða vímuefna. Þeir voru allir látnir lausir eftir sýnatöku. 

Um klukkan hálf fjögur í nótt barst tilkynning um ofurölvi mann sem hafði verið vísað út af skemmtistað í miðbænum vegna óláta. Þegar lögregla kom á staðinn neitaði hann að segja til nafns og var látinn gista í fangageymslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert