Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur boðað til opinna funda víðsvegar um landið á næstu tveimur vikum. Fundirnir verða opnir öllum og verður fyrirkomulagið afslappað, að því er fram kemur í tilkynningu.
Kristrún, sem býður sig nú fram í embætti formanns í Samfylkingunni, mun hefja fundaferðina á Akranesi á morgun.
„Ég vil eiga opið samtal við fólk og svara spurningum. Og ég vil segja betur frá þeim hugmyndum sem ég setti fram í Iðnó um daginn þegar ég tilkynnti framboð til formanns. Þær hafa greinilega vakið athygli víða. Ég vil að við jafnaðarmenn förum aftur í kjarnann og náum virkari tengingu við venjulegt fólk um land allt,“ er haft eftir Kristrúnu í tilkynningu.
Hægt er að sjá fundarplan Kristrúnar hér fyrir neðan:
5. september — Akranes
6. september — Ísafjörður
7. september — Eskifjörður
8. september — Akureyri
9. september — Vestmannaeyjar
10. september — Hafnarfjörður og Kópavogur
11. september — Selfoss og Reykjanesbær
12. september — Mosfellsbær
17. september — Breiðholt
18. september — Grafarvogur og Miðborg