Einn eftirminnilegasti dagurinn á ævi Tómasar

Tómas segir aðstæður hafa verið frábærar.
Tómas segir aðstæður hafa verið frábærar.

Hnúfubakar hafa látið sjá sig í Arnarfirði í sumar og glatt íbúa jafnt sem ferðamenn. Tómas Guðbjartsson læknir er einn þeirra sem hefur fylgst náið með hnúfubökunum en hann sló til á laugardag og stakk sér til sunds með konungum sjávarins eins og hann kallar þá.

Tómas var í ferð fyrir vestan með rannsóknarhópi sínum, tíu nemum í vísindarannsóknum á Landspítalanum og voru þau með í bátsferðinni.

„Þetta eru bestu aðstæður sem hægt er að hugsa sér, svartalogn á firðinum og engin innlögn en það getur oft verið vindur inn fjörðinn,“ segir Tómas í samtali við mbl.is.

Tóku lagið inni á milli

Nálægðin við dýrin var mikil en Tómas segir að hann hafi í raun synt ofan á einu þeirra þegar það fór rétt framhjá bátnum.

Tómas kvaðst ekki hræddur við að stinga sér til sunds með hnúfubökunum: „Þetta eru aðallega svif og annað slíkt sem þeir borða en ég fór út í með sundskýlu og gleraugu og synti með þeim. Það liðu um það bil fjórar mínútur á milli þess sem hvalirnir sýndu sig og tóku Gísli Ægir og Sigurður Ingi þá lagið með gítar og munnhörpu í hönd.“

Tómas deilir á facebook myndskeiðum sem sýna þessa upplifun á firðinum á laugardaginn.

Í færslunni segir Tómas jafnframt að þetta hafi verið einn eftirminnilegasti dagur ævi sinnar og örugglega hinna líka sem voru með í för. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert