Hátíðarhöld vegna Ljósanætur í Reykjanesbæ fóru vel fram um helgina þar sem mikill fjöldi fólks var saman kominn. Þrátt fyrir fjölmennið var lítill erill hjá lögreglu og engin árás eða alvarlegt mál komið inn á þeirra borð. Þetta staðfestir lögreglan á Suðurnesjum við mbl.is.
Blíðskaparveður var um helgina og nutu heimamenn og hátíðargestir langt fram á nótt. Þetta var í 21. skipti sem hátíðin var haldin en hún var fyrst haldin árið 2000.