Göngum í skólann hefst á miðvikudaginn

Á mynd má sjá nemendur hefja verkefnið Göngum í skólann …
Á mynd má sjá nemendur hefja verkefnið Göngum í skólann með því að ganga verkefnið formlega af stað árið 2020. Ljósmynd/ÍSÍ

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands mun setja af stað verkefnið Göngum í skólann á miðvikudaginn kl. 8:45 í Melaskóla í Reykjavík. Er þetta í 16. skiptið sem Ísland tekur þátt í alþjóðlega verkefninu Göngum í skólann, en verkefnið hófst í Bretlandi árið 2000.

Í tilkynningu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands segir að í boði verði flott dagskrá sem lýkur á því að nemendur og gestir ganga verkefnið formlega af stað.

Enn fremur segir í umræddri tilkynningu að meginmarkmið verkefnisins sé að hvetja nemendur og foreldra á Íslandi til að ganga, hjóla eða nota aðra virka ferðamáta til og frá skóla, hvetja til aukinnar hreyfingar og fræða börn um ávinning reglulegrar hreyfingar. Önnur markmið er að hvetja til heilbrigðs lífstíls, auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann sem og að draga úr umferð við skóla. Um leið er verið að stuðla að vitundarvakningu um ferðamáta og umhverfismál: hversu „gönguvænt“ umhverfið er og hvar úrbóta er þörf, líkt og segir í téðri tilkynningu.

Þeir sem að verkefninu standa hérlendis eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Embætti landlæknis, ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Samgöngustofa og Landssamtökin Heimili og skóli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert