Rúður voru grýttar í skrifstofuhúsnæði þar sem Sósíalistaflokkurinn ásamt öðrum samtökum leigir aðstöðu í fyrradag. Skemmdarverkin áttu sér stað nokkrum dögum eftir að Gunnari Smára Egilssyni, formanni framkvæmdarstjórnar Sósíalistaflokksins, barst hótun sem tilkynnt hefur verið til lögreglunnar.
Hótunin beindist einnig að fjölskyldu Gunnars Smára og þá sagði í skilaboðunum að sendandinn sæi sér ekki færi á öðru en að beita vopnum. Gunnar Smári segir frá þessu í facebook-færslu en þar segir hann einnig frá því að annar maður hafi haft í hótunum við sig og veist að sér og fjölskyldu sinni úti á götu fyrir skemmstu.
Þá segist hann gruna að annar mannanna hafi framið skemmdarverkin á skrifstofuhúsnæði Sósíalista án þess að hann viti það fyrir víst.
Í samtali við mbl.is segist hann hafa verið að taka upp og senda út myndbandshlaðvarp dýpra inn í húsinu þegar rúðurnar voru grýttar. Hann hafi þá ekki heyrt þegar þær brotnuðu enda rýmið sæmilega hljóðeinangrað en tveir gluggar voru brotnir, meðal annars þar sem merki Sósíalistaflokksins er.
Spurður hvort skilaboðin veki óhug hjá sér segist Gunnar Smári ekki viss um það.
„Manni hefur verið hótað svona í gegnum tíðina og það er ekki alveg ljóst hvernig maður á að hugsa um þetta. Því þetta er náttúrulega einver vitleysa, einhver rökleysa og þvæla í hausnum á einhverjum mönnum úti í bæ. Það er ekki hægt að hugsa vit inn í einverju vitleysu þannig í sjálfu sér getur maður ekkert gert við þetta nema leiða þetta hjá sér með einhverjum hætti,“ segir Gunnar Smári í samtali við mbl.is.
Hann segir þó að honum hafi þótt ástæða til að tilkynna hótanirnar til lögreglu.