Leiðtogafundur Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins í Reykjavík efndi í dag til blaðamannafundar í Hörpu í Reykjavík þar sem fulltrúar frá Úkraínu, stjórnarandstöðunni í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi, auk Erkki Tuomioja, forseta Norðurlandaráðs, og Jānis Vucāns, forseta Eystrasaltsþingsins, héldu ávörp og svöruðu spurningum blaða- og fréttamanna.
Á blaðamannafundinum var kastljósinu beint að því hvernig Eystrasaltsríkin og Norðurlönd geta stuðlað að jákvæðri þróun til langframa á átakasvæðunum. Lesía Vasílenkó, þingmaður úkraínska þingsins, segir í samtali við mbl.is að Úkraína hafi ávallt átt í góðu sambandi við Norðurlandaþjóðir og að þau tengsl megi rekja aftur um aldir.
Hún segir mörg tækifæri í framtíðinni til að auka samskiptin milli þjóðanna. „Það eru margir möguleikar í framtíðinni fyrir bættum samskiptum. Fyrir stríðið bárust stærstu fjárfestingar erlendra fyrirtækja í endurnýjanlegum orkulausnum í Úkraínu frá Norðurlandaþjóðunum,“ segir Vasílenkó og bætir við að Úkraínumenn vonist til að þær þjóðir muni ekki missa áhugann og hjálpi til við endurbygginguna eftir að stríðinu lýkur.
„Þá getum við unnið að nýsköpun og að stafrænum lausnum sem Úkraína, Eystrasaltríkin og Norðurlandaþjóðirnar hafa mikinn áhuga á. Það var samvinna um þessi mál fyrir stríð og sú samvinna hefur haldið áfram,“ segir Vasílenkó.
Hún bendir á að Íslendingar reiði sig á innflutning landbúnaðarafurða, en Úkraína er ein helsta landbúnaðarþjóð heimsins og flytji út um 60% af því sem ræktað er þar. Þar gætu því verið sóknarfæri fyrir aukin viðskipti á milli landanna. Vasílenkó bætir við að svigrúm sé fyrir enn frekari samvinnu á milli Úkraínu og Norðurlandaþjóðanna í framtíðinni.
Leiðtogafundinum mun ljúka á morgun, en markmiðið með honum er meðal annars að afla nýjustu frétta af stöðu mála í Úkraínu en einnig af baráttu stjórnarandstæðinga í Rússlandi og Belarús og að ræða saman um það sem er framundan.