Umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði sjö ökumenn og sektaði fyrir notkun farsíma en þeir voru að taka upp myndskeið af slysavettvangi.
„Umferðardeildin vill minna á að þetta skapar mikla hættu fyrir lögreglumenn á vettvangi og vegfarendur. Auk þess vill lögregla biðla til ökumanna að sýna nærgætni þar sem oft er um alvarleg umferðarslys að ræða og myndupptökur með öllu óviðeigandi,“ segir í dagbók lögreglu.
Kemur þá einnig fram að nóttin hafi verið frekar róleg miðað við nætur helgarinnar.
Á fjórða tímanum í nótt var tilkynnt um mann með eggvopn fyrir utan hús í austurborginni. Lögregla fór strax á staðinn en maðurinn fannst ekki þrátt fyrir leit og ekki bárust fleiri tilkynningar um hann.
Klukkan hálftvö var tilkynnt um yfirstandandi innbrot í fyrirtæki en innbrotsþjófurinn fannst skammt frá vettvangi með þýfið meðferðis. Var hann vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar máls.
Eldur kom upp í bifreið klukkan hálfþrjú í nótt. Segir í dagbók að málið sé í rannsókn og að orsök eldsins sé ókunn. Slökkvistarf gekk greiðlega.
Þá var ökumaður hraðamældur á 135 km/klst þar sem hámarkshraði er 80 km/klst. Hann reyndi að stinga lögreglu af en var stöðvaður eftir stutta eftirför. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og vörslu ávana- og fíkniefna.