Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir hækkun sjávarborðs vaxandi áhyggjuefni og að grípa þurfi til aðgerða til að verja strandlengjuna í stórum stíl til að bregðast við. Umtalsverð áskorun blasi við.
Ráðstefna um áhrif loftslagsbreytinga á sveitarfélögin í landinu og aðlögunaraðgerðir, var haldin á Grand Hótel fyrr í dag. Til máls tóku ýmsir sérfræðingar og ráðherrar, ásamt fulltrúum sveitarfélaga. Margar áskoranir voru ræddar, meðal annars hækkun sjávarborðs.
„Það er búið að vera þolanlegt ástand hvað það varðar. Við höfum varið einstaka hluta, einstaka svæði en þetta er vaxandi áhyggjuefni,“ segir Sigurður Ingi, í samtali við mbl.is að ráðstefnu lokinni.
Að sögn Sigurðar þurfa Íslendingar að fara að verja strandlengjuna í stórum stíl til að bregðast við hækkun sjávar og öfgum í veðri sem valdi aukinni ölduhæð.
„Það getur þýtt að við þurfum að verja stærri kafla af strandlengjunni. Það verður umtalsverð áskorun. Þess vegna væri ágætt að koma í veg fyrir að sjórinn hækkaði mikið.“