Félagsmenn í Félagi stjórnenda leikskóla (FSL) og Skólastjórafélagi Íslands (SÍ) samþykktu nýgerða kjarasamninga við Samband íslenskra sveitarfélaga í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Kennarasambands Íslands.
Samninganefndir FSL og SÍ skrifuðu hvor um sig undir kjarasamning við Sambands íslenskra sveitarfélaga 26. ágúst síðastliðinn. Samningarnir voru síðan kynntir félagsmönnum og bornir undir atkvæði. Kosið var dagana 31. ágúst til 5. september.
Atkvæðagreiðslu um samningana tvo lauk á hádegi. Samningarnir gilda frá 1. janúar 2022 og til 30. september 2023.
Rúmlega 51% félagsmanna FSL greiddu atkvæði með samningnum og rúmlega 47% á móti. Kosningaþátttaka meðal félagsmanna var um 63,7%.
Hjá SÍ greiddu 88% félagsmanna atkvæði með samningnum og 10% á móti. Þátttaka var 65,5%.