Sýn hf. og Ljósleiðarinn ehf. rituðu í dag undir samkomulag um einkaviðræður og helstu skilmála samninga sem lúta annars vegar að sölu á stofnneti Sýnar hf. til Ljósleiðarans ehf. og hins vegar að þjónustusamningi milli fyrirtækjanna til tíu ára, en þetta kemur fram í tilkynningu.
Samið hefur verið um kaupverð að fjárhæð 3 milljarðar króna.
Sýn á og rekur vörumerkin Vodafone, Stöð 2, Stöð 2 Sport, Vísi, Bylgjuna, FM957 og X977.
Gert er ráð fyrir að söluhagnaður Sýnar nemi yfir 2 milljörðum króna og að hagkvæmni náist fram í rekstri. Viðskiptin munu því styrkja efnahag og lausafjárstöðu félagsins enn frekar.
Nánari grein verður gerð fyrir reikningshaldslegri meðferð viðskiptanna þegar endanlegur kaup- og þjónustusamningur liggur fyrir. Miðað er við að endanlegir samningar liggi fyrir eigi síðar en 15. desember næstkomandi.
Samkeppniseftirlitið á eftir að samþykkja endanlega kaup- og þjónustusamninga um viðskiptin og er samkomulagið með fyrirvara um fjármögnun og áreiðanleikakönnun.