Býður frítt í svifflug á Akureyri næstu daga

Feðginin Sigurlaug Arngrímsdóttir og Arngrímur Jóhannsson saman í svifflugi í …
Feðginin Sigurlaug Arngrímsdóttir og Arngrímur Jóhannsson saman í svifflugi í gær. Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson

Arngrímur Jóhannsson er mikill áhugamaður um svifflug og hefur flug verið hans starf og áhugamál í áratugi. Hann hóf sinn flugferil á Akureyri árið 1953 og nú þegar hann er kominn á eftirlaun fannst honum of mikill dofi vera kominn yfir þessa fallegu íþrótt.

Honum var þá bent á að gera eitthvað í málunum og lét þá slag standa og hefur boðið fólki upp á frítt svifflug á Akureyri. „Ég er með togvél og mjög fallega svifvél og fannst því upplagt að bjóða fólki að prufa svifflugið“ sagði Arngrímur í samtali við mbl.is, en greint var frá boði hans fyrst á Akureyri.net.

Hann kveðst ánægður með byrjunina og hvetur fólk sem hefur áhuga til þess að prufa svifflugið að nýta tækifærið. Veðrið hefur jafnframt verið afskaplega gott og útsýnið stórfenglegt. „Veðrið hefur verið afskaplega gott undanfarna daga og tilvalið í svifflug. Ef veðrið helst jafn gott og það hefur verið undanfarna daga þá verður þetta í boði fyrir alla þá sem vilja koma og fá að fljúga. Útsýnið í svona svifflugi er stórkostlegt og ótrúlega skemmtilegt þegar það viðrar vel. Maður sér Herðubreið, Snæfell og langt inn á jöklana, t.d. Vatnajökul og Langjökul.“

Dóttir Arngríms Sigurlaug var ein þeirra sem fór í svifflug í gær en hún hefur prufað þetta einu sinni áður og var afar hrifin. „Ef manni býðst að prufa svifflugið þá verður maður að stökkva á tækifærið, þetta er dásamlegt.“

Fyrir áhugasama verður allt tilbúið um klukkan 13 næstu þrjá til fjóra daga á Melgerðismelum á Akureyri við gamalt flugskýli en leiðin þangað er um Eyjarfjarðarbraut vestari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert