Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, kveðst deila þeim áhyggjum með fulltrúum ferðaþjónustunnar „að ef það verður umtalsvert bakslag í lífskjörum í Bretlandi og á meginlandinu geti það haft veruleg áhrif á eftirspurn eftir Íslandsferðum“.
Tilefnið er það bakslag sem orðið hefur í lífskjörum almennings í Bretlandi og víða í Evrópu, í kjölfar mikilla verðhækkana á raforku. Ein helsta afleiðing þeirra er aukin verðbólga sem aftur þrýstir á vaxtahækkanir. Fyrir vikið eykst vaxtakostnaður heimila og fyrirtækja sem bitnar á einkaneyslu og fjárfestingu.
Við þetta bætist að mörg ríki evrusvæðisins eru skuldsett í kjölfar kórónuveirufaraldursins og mega því illa við hækkandi vaxtakostnaði.
Ragnar Björn Ragnarsson, gjaldeyrismiðlari hjá Arion banka, segir orkukreppuna í Evrópu eiga þátt í að evran hafi gefið eftir.
„Veiking evrunnar er þessu tengd en margir af stóru vogunarsjóðunum hafa sett skortstöðu á evrópsk hlutabréf og evruna. Hún er mikið skortseld þessa dagana og meira en sést hefur hin síðari ár,“ segir Ragnar.
Búist sé við því að evrópski seðlabankinn hækki vexti enn frekar.
„Rætt er um hversu mikið hægt verður að hækka vexti áður en lönd eins og Ítalía hætta að ráða við vaxtastigið,“ segir Ragnar og vísar til skuldsetningar evruríkja.
Nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.