Karlmaður á sextugsaldri hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir meiri háttar skattalagabrot og rangfærslur í bókhaldi í tengslum við rekstur á einkahlutafélagi sem hann átti og stýrði en er nú gjaldþrota.
Er maðurinn í ákæru málsins sagður hafa vanframtalið eigin tekjur frá félaginu, offramtalið rekstrargjöld, ekki greitt virðisaukaskatt eða staðgreiðslu auk þess að lækka eigin skuld við félagið án þess að forsendur væru fyrir því. Samtals eru meint brot mannsins talin nema tæplega 308 milljónum.
Í ákæru málsins er listað upp að maðurinn hafi offramtalið rekstrargjöld félagsins um samtals 83,5 milljónir á árunum 2016 til 2017. Þá segir að hann hafi ekki staðið skil á virðisaukaskatti á árunum 2017 til 2019 upp á samtals 20,8 milljónir, né staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda á árunum 2017 til 2019 upp á samtals 7,5 milljónir.
Maðurinn er jafnframt sagður hafa rangfært bókhald félagsins m.a. með því að hafa gjaldfært sölureikninga sem ekki áttu við rök að styðjast og með því að lækka eigin skuld á viðskiptamannareikningi í bókhaldi félagsins, en ákæruvaldið telur engar forsendur hafa verið fyrir þeim gjörningi.
Að lokum er hann sakaður um að hafa ekki gefið upp tekjur frá félaginu til sjálf síns upp á samtals 139 milljónir árin 2016 til 2019, en með því er hann sagður hafa komist undan því að greiða samtals 61,9 milljónir í tekjuskatt og útsvar.
Samtals nema þessar upphæðir rétt tæplega 308 milljónum króna.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur síðar í þessum mánuði.