Stimpingar í kjölfar sprenginga

Stimpingar brutust út eftir flugeldasprengingar í gær. Frétt tengist mynd …
Stimpingar brutust út eftir flugeldasprengingar í gær. Frétt tengist mynd ekki beint. mbl.is/Hari

„Þetta er bókað eins og fjölmargir hafi hringt inn á fjarskipti og kvartað. Ég veit ekki nákvæmlega hver talan er en það voru fjölmargir,“ segir Guðmundur Pétur Guðmundsson lögreglufulltrúi um flugeldasprengingar í Skipasundi í gær.

Flugeldasýningar eru ólöglegar á þessum árstíma en það aftrar ekki öllum frá því að sprengja. Fréttablaðið greindi frá því fyrr í dag að mikið hefði gengið á í Langholtshverfi í Reykjavík í gær.

Samkvæmt umræðu á íbúahóp á Facebook var haldin flugeldasýning í tilefni brúðkaups í hverfinu en upp frá því bárust kvartanir og brutust þar að auki út slagsmál.

Hótað að kæra

Guðmundur segir að lögreglan geti sektað fólk fyrir að sprengja flugelda en það getur reynst erfitt vegna skorts á sönnunargögnum. 

„Það er töluvert um tilkynningar um flugeldaskothríðir en það er alltaf búið þegar við mætum á staðinn og þess vegna yfirleitt enginn sakborningur í málinu.

Núna erum við sannarlega með nöfn til að tala við þannig að þetta verður skoðað,“ segir Guðmundur og bætir við að það taki yfirleitt nokkrar vikur fyrir fólk að bera fram kæru.

„Það er oft þannig að þegar lögreglan ræðir við fólk á vettvangi í upphafi máls, þá eru menn reiðir og þá segja margir að þeir ætli að kæra. Það er gert þarna í þessu máli en það verður að koma í ljós hvort staðið verði við það.“

Guðmundur segir að helmingur mála af þessu tagi eru ekki kærð. Fólk semur sín á milli eða rennur reiðin eða áttar sig jafnvel á því að það hafi átt frumkvæðið sjálft.

Reiðir nágrannar og hnefahögg látin falla

Guðmundur segir að nágrannar hafi orðið reiðir við lætin og sprengingarnar í gær. Upphófust þá stimpingar og hnefahögg féllu. Eins og áður kom fram hefur ekki komið í ljós hvort málið verði kært eða hvort fólk sættist sín á milli.

„Það kemur einhver nágranni þarna og er reiður vegna sprenginganna og þá er veist að honum,“ segir Guðmundur um málsatvika en í kjölfarið á því voru stimpingar manna á milli fram og til baka.

Spurður hvort svona flugeldamál séu algeng svarar Guðmundur neitandi en tekur jafnframt fram að vandræði geta hlotist af þegar fólk ákveður að sprengja vegna þess að hávaðinn truflar hunda, ketti og jafnvel hross, en auk þess truflar hávaðinn næturró fólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert