Verðum að draga lærdóm af 2014

Lesía Vasílenkó, þingkona á Úkraínuþingi, er hér fyrir miðju.
Lesía Vasílenkó, þingkona á Úkraínuþingi, er hér fyrir miðju. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lesía Vasílenko, þingmaður úkraínska þingsins, segir að ekki megi venjast stríðsástandinu í Úkraínu og að það verði að draga lærdóm af árinu 2014 þegar Rússar réðust inn í austurhéruð Úkraínu og innlimuðu Krímskaga.

Leiðtogafundur Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins í Reykjavík efndi í gær til blaðamannafundar í Hörpu í Reykjavík þar sem fulltrúar frá Úkraínu, stjórnarandstöðunni í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi tóku til máls ásamt Erkki Tuomioja, forseta Norðurlandaráðs, og Jānis Vucāns, forseta Eystrasaltsþingsins. Svöruðu þau spurningum blaða- og fréttamanna.

Svipað upp á teningnum 

Spurð út í hvort að umheimurinn sé farinn að verða dofinn gagnvart innrás Rússa í Úkraínu, þar sem umfjöllunin taki nú frekar mið af orkumálum, matarskorti og öðrum vandamálum segir Lesía í samtali við mbl.is að sama hafi verið uppi á teningnum árið 2014.

„Þessi spurning endurrómar árin 2015 og 2016, eftir innrás Rússa 2014, þar sem ári síðar fór fólki að leiðast fréttaumfjöllunin af ástandinu. Á vissan hátt er það eðlilegt þar sem að mannsheilinn venst þessu, segir Lesía og bætir við að manneskjur séu oft fljótar að venjast því ástandi sem þær búi við hverju sinni.

„Það er einmitt þess vegna sem við verðum í ár að muna eftir lærdómi ársins 2014. Við verðum að ígrunda hugsanir okkar, tilfinningar og viðbrögð með fullri vitund; vitandi það að heilinn aðlagast aðstæðum. Við verðum að leggja okkur fram til að tryggja að Úkraína fái næga athygli, að Hvíta-Rússland fái næga athygli sem og stjórnarandstaða Rússlands. Ef það þarf að gerast í gegnum fjölmiðla, dagblöð eða sjónvarpið þá verður að hafa það,“ segir Lesía.

Hún bætir við að það sé nóg af sögum, sem þurfi að segja af átökunum, ótalmörgum sögum sem verði til á hverjum einasta degi átakanna. „Í Úkraínu búa 44 milljónir manna. Sérhver fjölskylda, sér hver einstaklingur hafa sína sögu að segja; sögur um sársauka, þrautseigju og samheldni. Sögur um baráttu okkar fyrir tilvistarrétti okkar og fyrir því að lýðræði okkar nái fram að ganga. Þetta eru sögurnar sem við viljum að fjölmiðlar greini frá þar til við höfum unnið sigur úr býtum,“ segir Lesía að lokum.

Lesía Vasí­len­ko, þingkona frá Úkraínu.
Lesía Vasí­len­ko, þingkona frá Úkraínu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert