Framkoma stofnunarinnar hafi eyðilagt rannsóknina

Gígja Skúladóttir (t.v.) ásamt tvíburasystur sinni, Brynju Skúladóttur, sem var …
Gígja Skúladóttir (t.v.) ásamt tvíburasystur sinni, Brynju Skúladóttur, sem var einnig vistuð á meðferðarheimilið. Ljósmynd/Aðsend

Rannsókn á meðferðarheimilinu á Varpholti og Laugalandi hefur verið gífurleg vonbrigði, að sögn konu sem vistuð var á heimilinu á yngri árum. Sigurinn sem fólst í því að íslenska ríkið samþykkti að mál kvennanna yrði tekið fyrir, féll fljótt í skugga þess hvernig staðið var að rannsókninni. 

Skýrsla er nú væntanleg á næstu dögum en hundsunin sem fyrrum vistmenn upplifðu af hálfu nefndarinnar sem fór fyrir rannsókninni, hefur sett svartan blett á ferlið.

„Mér er alveg sama um bætur. Ég þarf heldur ekki viðurkenningu á ofbeldinu því ég veit það. En mesta viðurkenning hjá mér var að það var samþykkt að skoða þetta. Þess vegna finnst mér svo leiðinlegt að þetta ferli hafi verið svona,“ segir Gígja Skúladóttir, fyrrum vistmaður heimilisins, um ferlið í samtali við mbl.is.

Upplifði smánun og vanvirðingu

Gígja segist hafa upplifað smánun og vanvirðingu þegar hún reyndi að nálgast upplýsingar um stöðu rannsóknarinnar – rannsóknar sem hún ásamt systur sinni og hópi kvenna hafði barist fyrir að yrði framkvæmd. 

Þá hafi lítið utanumhald verið með þeim konum sem tóku þátt í rannsókninni en slíkt ferli geti verið átakamikið og rifið upp gömul sár.

„Ég veit allavega um þrjár stelpur sem hafa greinst með vefjagigt í kjölfar þessa máls. Af því að rifja upp svona áföll þá blossa upp veikindi og vefjagigt er oft bara afleiðing af áföllum. Þannig klárlega var ekki haldið utan um okkur.“ 

Lýsti yfir stuðningi við forstöðumanninn

Ingjaldur Arnþórsson rak meðferðarheimili fyrir stúlkur á aldrinum 13 til 18 ára á árunum 1997 til 2007. Var heimilið til húsa að Varpholti fyrstu árin en síðar var það fært að Laugalandi. Al­var­leg­ar ásak­an­ir um of­beldi og harðræði af hálfu for­stöðumanns­ins komu fram á starfs­tíma meðferðar­heim­il­is­ins en yf­ir­völd aðhöfðust ekk­ert í mál­inu. Þess í stað lýsti þáver­andi for­stjóri Barna­vernd­ar­stofu, Bragi Guðbrands­son, yfir fullu trausti á Ingj­aldi árið 2007.

Það var ekki fyrr en í fe­brú­ar á síðasta ári að rík­is­stjórn­in samþykkti loks til­lögu Ásmund­ar Ein­ars Daðason­ar, sem þá var fé­lags­málaráðherra, þar sem Gæða- og eft­ir­lits­stofn­un vel­ferðar­mála (GEV) var falið að rann­saka málið. Sú ákvörðun var tek­in í kjöl­far þess að sex kon­ur stigu fram og lýstu bæði lík­am­legu og and­legu of­beldi af hálfu Ingj­alds.

Niðurstöður væntanlegar í september

Markmið rannsóknarinnar er að athuga hvort og þá í hvaða mæli börn, sem vistuð voru á meðferðarheimilinu, hafi sætt illri meðferð, andlegu eða líkamlegu ofbeldi á meðan dvöl þeirra stóð. 

Samkvæmt tilkynningu Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðamála (GEV), dagsett þann 29. ágúst, verður greinargerð um könnun stofnunarinnar á meðferðarheimilinu gefin út um miðjan mánuð. 

Verkefnið umfangsmikið

Upphaflega var áætlað að birta niðurstöður undir lok síðasta árs en sá tími reyndist of knappur og hefur nefndin þurft að fresta útgáfu skýrslunnar nokkrum sinnum síðan þá. 

Í kjölfar fréttaflutnings mbl.is í maí, þar sem m.a. var fjallað um tafir á afhendingu skýrslunnar, barst tilkynning frá GEV samdægurs þar sem fram kom að skýrsla væri langt komin og að unnið væri að loka samantekt. Ekki væri tímabært að segja hver útgáfudagur hennar væri en að vænta mætti að hún yrði tilbúin fyrir sumarið. Þá kom einnig fram að verkefnið væri umfangsmeira en stofnunin hafði gert sér grein fyrir.

Að sögn Gígju hefur það þó ekki verið biðin sjálf sem að veldur vonbrigðum, heldur er það þögnin og hundsunin af hálfu nefndarinnar gagnvart konunum sem vistaðar voru á heimilinu. 

Fyrirspurnir um stöðu rannsóknarinnar hafa ítrekað verið hundsaðar og þegar svör berast hafa þau verið formleg og ópersónuleg, eins og rannsóknin varði konurnar ekki. Þá hafi engar haldbærar skýringar á töfum skýrslunnar borist.

Þá vekur Gígja athygli á því að í skýrslu starfshóps, sem fór fyrir rannsókn á aðbúnaði og meðferð fullorðins fatlaðs fólks með þroskahömlun og fullorðinna með geðrænan vanda, hafi komið fram að mikil áhersla hafi verið lögð á virka þátttöku, samráð og gagnsæi til að auka traust.

Skýrslan var gefin út af forsætisráðuneytinu í maí og furðar Gígja sig á hvers vegna himin og haf sé á ólíkum viðhorfum og verklögum hjá rannsóknarnefndum sem báðar eru á vegum íslenska ríkisins – sérstaklega þar sem viðfangsefnið var keimlíkt þar sem verið sé að rannsaka ofbeldi á stofnunum.

Hefði verið lítið mál að gera vel

„Við höfum alltaf þurft að hamast í þeim til að fá eitthvað svar. Ef viljinn hefði verið fyrir hendi, þá hefði verið svo lítið mál að gera vel. Það hefði þurft að sýna svo lítið effort – þá hefði þetta ekki þurft að vera svona átakamikið.

Ef þau hefðu svarað okkur. Ef þau hefðu útvegað okkur eina manneskju sem hefði geta upplýst okkur, þá hefðum við bara verið sáttar. En ferlið er bara búið að vera ógeðslega erfitt út af hlutum sem hefði verið svo auðvelt að koma í veg fyrir. Mér finnst þetta vera svo mikið virðingaleysi,“  segir Gígja.

Óviðkomandi fékk svör samstundis

Gígja bendir þó á að þegar vinur hennar, sem er fyrrum blaðamaður, sendi fyrirspurn á stofnunina þá hafi svar borist samstundis. Það sé því ekki sama hver sé. 

Í kjölfarið sendi hún tölvupóst þar sem hún óskaði eftir svörum um hvers vegna manni sem væri málið óviðkomandi skildi fá svör á undan sér. Engin svör hafa borist við þeim pósti frekar en hinum ítrekuðu símtalsbeiðnum sem Gígja hefur farið fram á.

„Af hverju er í forgangi að svara honum en ekki okkur? Maður veltir því fyrir sér hvort það séu einhverjir fordómar þarna. Mér finnst þetta mjög skrítið,“ segir Gígja.

Rannsóknin eyðilögð

Þann 29. ágúst barst svo tölvupóstur frá Herdísi Gunnarsdóttur, forstjóra GEV, til Gígju þar sem fram kom að skýrsla væri væntanleg um miðjan september. Í póstinum var viðhengi á fréttatilkynningu á heimasíðu stofnunarinnar þar sem frá þessu hafði verið greint.

Að sögn Gígju hefur þó framkoma stofnunarinnar eyðilagt upplifun hennar af rannsókninni. Segir hún niðurstöðurnar ekki vera lykilatriði heldur hefði ferlið sjálft átt að vera ferli lækninga og heilinda, en annað kom á daginn.

„Þessi rannsókn var ekki mín eða okkar sem vistaðar vorum þarna á neinum tímapunkti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka