Samband íslenskra myndlistarmanna og Listfræðafélag Íslands gera alvarlegar athugasemdir við þær áherslur sem eru lagðar í auglýsingu um stöðu safnstjóra Listasafns Íslands (LÍ) og þann skamma fyrirvara sem tilvonandi safnstjóri hefur til að taka við embættinu.
Segja þau ákvörðunina um skamma fyrirvarann bera vott af metnaðarleysi, skorti á fyrirhyggju og skilningsleysi, þegar kemur að hlutverki safnstjóra.
Þetta kom fram í yfirlýsingu SÍM og Listfræðifélags Íslands.
Degi eftir að tilkynnt var um tilfærslu safnstjóra Listasafns Íslands í stöðu þjóðminjavarða var staða safnstjóra LÍ auglýst með þriggja vikna umsóknarfresti. Þá er gert ráð fyrir að nýr safnstjóri taki við rúmum mánuði eftir að umsóknarfrestur rennur út.
„SÍM og Listfræðafélag Íslands vilja ekki gera lítið úr mikilvægi leiðtogahæfni stjórnenda, en vekja athygli á mögulegum áhrifum þess á starfsemi sérhæfðra stofnana ef yfirmenn þeirra búa ekki yfir tilskilinni sérfræðiþekkingu á starfssviði viðkomandi stofnunar,“ segir í yfirlýsingunni.
Í yfirlýsingunni segir að safnstjóra LÍ sé m.a. ætlað að stjórna listaverkainnkaupum, sýningarhaldi, fræðslu, útgáfu og þjónustu og skipuleggja rannsóknir. Safnstjórinn þurfi að hafa yfirgripsmikla þekkingu á íslenskri myndlist og leiðtogahæfni ein og sér dugi skammt til að sinna þessum verkefnum.
„SÍM og Listfræðafélag Íslands gera því alvarlegar athugasemdir við þær áherslur sem eru lagðar í auglýsingu um stöðu safnstjóra Listasafns Íslands og þann skamma fyrirvara sem tilvonandi safnstjóri hefur til að taka við embættinu. Það er mikilvægt að slík embætti séu auglýst með góðum fyrirvara og ráðning tilkynnt nokkrum mánuðum áður en viðkomandi tekur við stöðunni.“
Félögin skora því á Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, að endurskoða starfshætti sína og taka ekki ákvarðanir sem kasta rýrð á starfsemi og ásýnd helstu menningarstofnana þjóðarinnar.