„Hélt að það væri eitthvað að veitukerfinu“

Margir borgarbúar hafa rekið upp stór augu við það að …
Margir borgarbúar hafa rekið upp stór augu við það að sjá nýjan þokuskúlptúr sem prýðir núna Tryggvagötuna. mbl.is/Tómas Arnar

Margir hafa rekið upp stór augu við gang um Tryggvagötuna fyrir framan Tollhúsið en þar reis á dögunum nýtt listaverk. Listaverkið er í gangstéttinni fyrir framan Tollhúsið og gefur frá sér gufu líkt og sjá má á myndunum sem fylgja fréttinni. 

Einn af vegfarendum sem hafa undrast yfir nýja listaverkinu er Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. „Við Íslendingar eigum mörg falleg listaverk þar sem unnið hefur verið með ljós, skugga og rennandi vatn. Ég var svolítið hissa þegar ég sá þetta og hélt að það væri eitthvað að veitukerfinu eða að heitavatnslögn hefði sprungið.

Þokuskúlptúr sem skapar leik og dulúð

„Ég er nú ekki viss um að rétt sé að kalla þetta listaverk enda held ég að enginn tiltekinn listamaður sé skráður fyrir verkinu. Þetta er að minnsta kosti hönnun sem er hluti af endurgerð götunnar,“ tekur Marta fram.

Á vefsíðu Reykjavíkurborgar er verkinu lýst sem þokuskúlptúr. „Innblásturinn er hafið því listaverkið er sjávarmynd,“ er haft eftir hönnuði skúlptúrsins Áslaugu Traustadóttur á vefsíðunni. Þar kemur jafnframt fram að þokuskúlptúrarnir séu hannaðir eftir erlendri fyrirmynd og að með þeim sé ætlunin að bjóða upp á leik og þar að auki skapa dulúð og stemmingu. 

Áslaug hannaði skúlptúrinn ásamt Landmótun, teiknistofu landslagsarkitekta. Slökkt er á skúlptúrnum á veturna og á nóttunni yfir sumarið. Að sögn Mörtu fer það oft eftir vindáttum og vindstyrk hvort það sést í gufuna á annað borð.

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd/Aðsend

Segir leikskólamál eiga vera í forgangi

Að mati Mörtu ætti forgangurinn hjá borgarstjórn Reykjavíkurborgar ekki að liggja í dýrum framkvæmdum og hönnun eins og í Tryggvagötu en frekar ætti  að setja  fjármagn og tíma í að leysa leikskólamálin í borginni. 

„Mér finnst það vera alveg skýrt hver forgangurinn í borginni eigi að vera. Hann á auðvitað að vera í þágu grunnþjónustu og sérstaklega þar sem vandinn er mestur en það er í leikskólanum.“

Hún bætir þá við að einu málin sem eigi að vera í algjörum forgangi núna séu leikskólamálin. „Meirihlutinn verður bara að bretta upp ermarnar og standa við sín loforð. Manni finnst skrítið að setja svona verkefni sem geta beðið í forgang þegar mörg hundruð börn eru á biðlista eftir leikskóla og viðhaldi á húsnæði leikskóla víða ábótavant.“

Ekki liggur fyrir hve mikill kostnaðurinn var við framkvæmdirnar á þokuskúlptúrnum en Marta segir hann líklegast hafa verið þó nokkurn. „Þó að Tryggvagatan sé mjög falleg var kostnaðurinn við endurgerð götunnar feikilega mikill.“ 

Tryggvagatan þar sem þokuskúlptúrinn sést fyrir framan Tollhúsið.
Tryggvagatan þar sem þokuskúlptúrinn sést fyrir framan Tollhúsið. mbl.is/Tómas Arnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert