Sól og veðurblíða hefur verið á suðvesturhorni landsins í dag, og víða annars staðar. Samkvæmt mælingum Veðurstofunnar hefur hiti farið upp í 20 gráður við veðurathögunarstöðina í Litla-Skarði og upp í tæplega 21 gráðu við Húsafell og Hjarðarland.
Hitinn hefur þó ekki náð sama hámarki og í gær og fyrradag, þegar hann fór upp í 22 gráður í uppsveitum Suðurlands.
Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir hitann óvenjumikinn miðað við árstíma en þó í takt við síðustu daga. Enn sé þó nokkuð í að hitamet fyrir septembermánuð verði slegið.
Þess má þó geta að meðalhiti fyrstu sex daga mánaðarins hefur reynst nánast sá sami og í ágúst.
Meðalhitinn í höfuðborginni síðustu sex daga var 10,2 gráður, sem er nákvæmlega sami hiti og mældist í ágúst. Á Akureyri hefur meðalhiti fyrstu daga mánaðarins verið 9,9 gráður, sem er 0,1 gráðu lægra en meðalhitinn í ágúst.
Þá hefur meðalhitinn í september verið aðeins hærri en meðalhitinn í ágúst á Egilsstöðum, en hann hefur hækkað úr 10,2 í síðasta mánuði, í 10,3 gráður.