„Langar að fara að gráta“

Ljósmynd/Brunavarnir Suðurnesja

„Það gengur bara rosa vel. Það hafa mjög margir lagt inn á reikninginn og ég er mjög þakklát,“ segir Erna Kristín Brynjarsdóttir um söfnunina sem fór af stað eftir að hún og eiginmaðurinn hennar misstu heimili sitt í bruna í Reykjanesbæ í fyrradag.

Erna Kristín kom þá heim eftir að hafa skutlað börnum sínum tveim í leikskóla og sá að íbúð fjölskyldunnar hefði brunnið til kaldra kola. Rúv greindi frá en ekki er vitað hver eldsupptökin voru.

Fjölskyldan fékk úthlutað íbúð hjá Heimavöllum í kjölfarið en býr nú inni á heimili móður Erlu Kristínar meðan beðið er eftir að íbúðin verði tilbúin.

Komin með það allra nauðsynlegasta

Átta manns höfðu lagt inn á reikning til styrktar fjölskyldunni í gær og 24 gerðu slíkt hið sama í fyrradag. Þá hafa fleiri lagt hönd á plóg við að útvega fjölskyldunni húsgögn og föt.

„Maður er alveg í sárum. Við vorum nýbúin að kaupa okkur nýtt sjónvarp, nýtt rúm og vorum komin á góðan stað hvað það varðar en erum nú komin aftur með það allra nauðsynlegasta,“ segir Erna og kveðst afar þakklát. 

„Mig langar bara að fara að gráta yfir því hvað allir hafa verið góðir við að hjálpa okkur og lagt sitt af mörkum,“ bætir hún við að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert