Nota óhæft og óviðurkennt efni undir leiktæki

Herdís Storgaard, forstöðumaður Miðstöðvar slysavarna barna segir sprautunálar og nikótínpúða …
Herdís Storgaard, forstöðumaður Miðstöðvar slysavarna barna segir sprautunálar og nikótínpúða geta horfið í trjákurlið. mbl.is

Trjákurl er ekki viðurkennt öryggisundirlag á leiksvæðum barna á Íslandi, ekki þó endilega vegna köfnunarhættu ef börn stinga kurlinu upp í sig, heldur vegna þess að það hentar ekki á norðlægum slóðum.

Kurlið drekkur í sig bleytu og verður glerhart í frosti. Einnig kemur það í veg fyrir aðgengi fatlaðra og hreyfihamlaðra að leiksvæðunum. Þá er ekki hægt að fá vottað kurl á Íslandi. Þetta segir Herdís Storgaard, hjúkrunarfræðingur og forstöðumaður Miðstöðvar slysavarna barna.

Greint var frá því í Morgunblaðinu í dag að barn á leikskólanum Eyrarskjóli á Ísafirði hefði næstum kafnað þegar það setti trjákurl upp í sig, sem notað er sem öryggisundirlag eða fallvörn á ungbarnasvæði leikskólans. Hjallastefnan rekur leikskólann en Ísafjarðarbær á lóðina.

Stjórnendur leikskólans gerðu athugasemd þegar þeir sáu trjákurlið við endurbætur á lóðinni í fyrra og leist illa á efniviðinn. Í kurlinu voru smáir bútar og stærri spýtur með hvassa enda. Sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs bæjarins sagði að setja yrði kurlið niður samkvæmt útboði. Um væri að ræða viðurkenndan efnivið til að nota sem fallvörn.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðabæjar, sagði í samtali við Morgunblaðið að mikilvægt væri að tryggja að svona gerðist ekki aftur. Kanna þyrfti hvernig fallvörnum væri háttað á öðrum leikskólum og hvort hægt væri að skipta út fallvörnun á ungbarnasvæðinu.

Ár væri síðan lóðin var tekin gegn. Hún hafi verið hönnuð af fagaðilum, tekin út af fagaðilum og unnin eftir stöðlum. Skoðað sé hvar ábyrgðin liggi á efnisvalinu.

Kurl ekki gott í frosti og snjó

Herdís segir hins vegar ljóst að þarna sé ekki verið að fylgja reglugerð um öryggi leikvalla, tækja og svæða. Hún hélt utan um endurskoðun reglugerðarinnar fyrir umhverfisráðuneytið, sem kemur út á næstunni.

Vísar reglugerðin í gildandi staðla í Evrópu fyrir leiksvæði barna, en undirlag þarf að vera til staðar þegar tæki er komið í ákveðna hæð. 60 sentimetra á leikskólum og eins metra hæð í grunnskólum.

„Í staðlinum er fjallað um að allt öryggisundirlag sem sett er niður, í hvaða landi sem er í löndum Evrópusambandsins, þá þarf að taka mið af veðurfarsaðstæðum. Það hefur sýnt sig að kurl er ekki gott í löndum þar sem er mikill snjór og frost,“ segir Herdís í samtali við mbl.is.

Kurlið sé náttúrulegt efni sem verði rennandi blautt þegar rignir og þegar frjósi verði það glerhart.

„Það er ekki að uppfylla kröfur staðalsins og reglugerðarinnar að nota kurl sem öryggisundirlag. Það er bara vitað og það er ekki notað þar sem eru vetrarhörkur, eins og í norðurhluta Evrópu.“

Sprautunálar og nikótínpúðar hverfa í kurlið

Herdís tekur fram að hún hafi hvorki rætt við fulltrúa sveitarfélagsins né leikskólastjórnendur, en henni þykir afar ósennilegt að um vottað kurl sé að ræða.

„Ég veit að það er ekki neinn framleiðandi á kurli á Íslandi sem hefur látið votta kurlið, að það standist dempunarkröfur ef barn dettur úr tækinu. Ég stilli því stórri spurningu upp við það hvort þetta kurl sé yfir höfuð vottað. Það er engin vottunarstofa á Íslandi sem getur vottað þetta, af því það þarf að vera nákvæm lýsing á því hvernig á að leggja þetta, hversu þykkt það á að vera til þess að dempunin sé í lagi ef barn dettur niður,“ segir Herdís.

„Það sem ég get lesið út úr fréttunum, án þess að hafa aðrar upplýsingar fyrir framan mig, þá dreg ég þá ályktun að þarna sé í fyrsta lagi verið að nota efni sem ekki er hæft til notkunar á Íslandi. Og í öðru lagi, þarna hefur efni verið keypt sem ekki er vottað. Þarna er rekstaraðilinn, sveitarfélagið, ekki að framfylgja reglugerðinni um öryggi leikvalla, tækja og svæða,“ segir hún jafnframt.

Þá bendir Herdís á annan áhættuþátt varðandi kurlið. Leikskólalóðir séu þekktir samkomustaðir unglinga sem nota nikótínpúða í auknu mæli.

„Þegar þú ert með kurl, þá hverfur allt í kurlið. Þetta getur sparkast yfir og svo fer barn að grafa í þessu og finnur nikótínpúða. Ég veit að sveitarfélög í borgum og bæjum á Norðurlöndum eru hætt að nota kurl því sprautunálar hafa horfið í kurlið og börn hafa fundið þær og slasað sig á þeim. Kurl er því ofboðslega óhentugt efni.“

Starfsfólk oft ekki nógu vel að sér í öryggismálum 

Eins nefnir Herdís mikilvægi aðgengis fyrir alla að leikvöllum sem kveðið sé á um í byggingarreglugerð. „Öryggisundirlag sem er á hreyfingu það hindrar barn sem er í hjólastól eða með hækjur eða foreldri eða starfsmann leikskóla að komast að tækinu.“

Hvað varðar köfnunarhættu af kurlinu segir Herdís að verði að horfa á í víðara samhengi, enda séu börnin úti og þar sé alltaf hætta á að þau geti fundið eitthvað sem þau geta stungið upp í sig. Ekki megi bara kenna öryggisundirlaginu um.

„Börn eru úti, þau fara í ferðir utan leikskólans og það þarf að gæta öryggis þeirra þar. Það eru alls staðar smáhlutir í umhverfinu þannig starfsfólkið þarf að vera sérstaklega meðvitað um það að börn eru á svokölluðu munnstigi til þriggja til fjögurra ára. Þau setja allt í munninn til að skoða umhverfið.“

Starfsfólkið þurfi því að hafa þekkingu og getu og fylgjast vel með börnunum. Herdís segir það þekkt í mörgum leikskólum að starfsfólk sé ekki nógu vel að sér í öryggismálum barna, því ekki sé gerð krafa um það. „Hvað er að fylgjast vel með barni úti á lóð? Það er að hafa þekkingu á hættum og bregðast við áður en barnið fer að setja eitthvað upp í nefið á sér og munninn. Og hafa nægilega margt starfsfólk á lóðinni. Því yngri sem börnin eru því fleira starfsfólk þarf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert