September er genginn í garð og eru bændur víða að undirbúa réttir komandi helgi. Smalar leggja margir af stað upp á fjall á morgun eða föstudag, og enn aðrir lögðu af stað í síðustu viku, til að mynda Gnúpverjar sem þurfa að fara alla leið inn undir Hofsjökul til að sækja fé.
Fyrsta stóra réttarhelgi haustsins fór þó fram um síðustu helgi þegar réttað var víða um land en sérstaklega þó á Norðurlandi, þar á meðal í Hrútatungurétt í Hrútafirði, þar sem logn sólskin og steikjandi hiti tók á móti fólki.
Matthildur Hjálmarsdóttir, smali og fyrrverandi bóndi á Þóroddsstöðum, segir að vel hafi gengið þegar að nokkur þúsund kindur voru reknar af fjalli á laugardaginn, sem var þó degi á eftir áætlun. Mikil þoka á föstudeginum gerði það að verkum að ekki var hægt að reka kindurnar heim þá, eins og stefnt var að.
Á laugardag var þó annað upp á teningnum þegar blíðskaparveður var. Þá var sömu sögu að segja af sunnudeginum en að sögn Matthildar var sólskin og hiti það mikill að menn þurftu að passa sig að fara varlega í réttunum til að skapa ekki of mikinn hamagang í kringum kindurnar. Þeim hætti til að verða full heitt í svona blíðskaparveðri.