Úttektin eflir vonandi traust almennings

MAST hefur síðustu daga sætt harðri gagnrýni í tengslum við …
MAST hefur síðustu daga sætt harðri gagnrýni í tengslum við hrossavelferðarmál. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hrönn Ólína Jörundsdóttir forstjóri Matvælastofnunnar fagnar frumkvæðisúttekt Ríkisendurskoðunar á eftirliti stofnunarinnar með velferð dýra. Hún segist vona að úttektin efli traust almennings á störfum MAST.

„Ég skil alveg almenning, af því við megum ekki tjá okkur opinberlega og af því að við megum ekki miðla til aðilanna sem senda inn ábendingar þá lítur alveg út eins og við séum ekki að gera neitt,“ segir Hrönn.

Í síðustu viku greindi íbúi í Borgarnesi frá illri meðferð á hestum sem voru til húsa í hesthúsahverfi í grennd við bæinn. Sagðist hún oft hafa samband við MAST vegna vanrækslu hestanna en einungis fengið þau svör að málið væri í ferli. MAST hefur í kjölfarið sætt harðri gagnrýni.

„Við erum eftirlitsstofnun og fylgjum ferlum sem miða að því að tryggja velferð dýranna og gæta að góðri stjórnsýslu. Þannig að fá Ríkisendurskoðun til að fara yfir þessa ferla og sjá hvernig við vinnum er mjög jákvætt,“ segir Hrönn.

Hún bætir við að komi ríkisendurskoðun með athugasemdir um hvernig MAST geti bætt sína ferla þá fagni þau því líka. „Því við erum alltaf að reyna að vinna eins vel og við mögulega getum.“

Ríkir töluverð rannsóknarskylda

Hrönn segir vandann oft vera þann að málin séu ansi flókin. „Vandamálið er náttúrulega að við þurfum að tryggja að allar aðgerðir sem við tökum séu teknar á góðum grunni. Þannig það ríkir töluverð rannsóknarskylda á okkur.“

Hún bendir á að í flestum tilfellum þar sem MAST þarf að stíga inn í leysist málin farsællega, bæði fyrir dýrin og eigendur.

„En við getum líka sagt það að margar ábendingar sem við fáum inn eru ekki á rökum reistar, þær eru þá leið aðila sem eru í einhverjum deilum til að koma á höggi,“ bætir hún við.

Geta vörslusvipt á staðnum

Hrönn segir að MAST eigir í verkfærakistunni neyðarúrræði sé aðstaða dýranna það alvarleg. „Þá getum við gengið inn og og í raun og veru vörslusvipt á staðnum. Sem betur fer eru aðstæður mjög sjaldan þannig,“ segir hún.

Hún segir það mjög misjafnt hversu langan tíma mál taka hjá MAST. „Það fer bara eftir stöðu mála og hvaða atriði er úrbótavant hjá viðkomandi eiganda. Við komum líka inn í aðstæður þar sem eigandinn er samvinnufús og breytir og bætir aðstæður dýranna þegar þeir fá ábendingar frá okkur eða tiltölu. Sem betur fer er það bara mjög algengt.“

Þá geti mál oft verið flókin og dæmi séu um að aðilar hafi brugðist við ábendingum en síðan fari málið aftur í sama farið og þá þurfi að hefja ferlið upp á nýtt.

Ekki andlitslausir blýantanagarar

Hrönn segir að þeir sem vinni hjá MAST að dýravelferðarmálum séu að vinna hjá stofnunni af því að þau viti að þau geti haft áhrif á dýravelferð. Hún bendir því á að það sem svíði mest síðustu daga sé gagnrýnin sem starfsfólk MAST hefur fengið.

„Við getum alveg tekið gagnrýni á okkar störf, þau eru ekki hafin yfir gagnrýni en það er í raun og veru verið að ýja að því að við séum í rauninni andlitslausir blýantanagarar sem er alveg sama um dýravelferð,“ bætir hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert