„Hvort að þessar hreyfingar sem mynda þessa skjálfta geti opnað leið fyrir kviku til yfirborðs, er mjög erfitt að segja af eða frá. Ég myndi ekki útiloka það. Það er alltaf möguleiki en sennilega er það ólíklegt í þessu tilfelli,“ segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur hjá Háskóla Íslands um möguleikann á neðansjávargosi norðaustan við Grímsey.
Greint var frá því í dag að töluverð skjálftavirkni væri norðaustan við eyjuna. Skjálfti af stærðinni 4,9 mældist um 12 kílómetra austnorðaustur af Grímsey kl. 04.01 í nótt.
Fjöldi eftirskjálfta hefur fylgt í kjölfarið en hrinur á þessu svæði eru algengar og byrjaði hrinan í nótt um tvöleytið.
Þegar blaðamaður mbl.is spurði Lovísu Mjöll Guðmundsdóttur, náttúruvársérfræðing á jarðskjálftavakt Veðurstofunnar, hvort möguleiki væri á neðansjávargosi í tengslum við þessa atburði svaraði hún því neitandi.
Þorvaldur bendir á að ef gos væri komið af stað í nánd myndu þau hjá Veðurstofunni sjá óróa. „Ef þau hafa ekki séð neinn óróa þá eru litlar líkur á að það sé gos komið,“ segir Þorvaldur.
„Þvergengisbeltið sem liggur frá Melrakkasléttu eða Skjálfanda og þarna yfir í gegnum Grímsey út í Kolbeinseyjahrygg er svipað belti og liggur yfir Reykjanesskaga að því leytinu til að láréttar hreyfingar eru ráðandi eftir plötuskilunum.
Það getur alveg gerst svipað og gerðist á Reykjanesskaga að þessi tilfærsla á plötuskilunum opni leið fyrir kviku til yfirborðs, þó að það sé frekar ólíklegt í augnablikinu. Það þyrfti þá eitthvað meira að gerast en er í gangi þarna núna,“ segir Þorvaldur.
Hann nefnir að gosið hafi við Mánáreyjar á 19. öld en þær eru suðaustan við Grímsey.