Landsréttur hefur snúið við úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þar sem fallist hafði verið á kröfu Arnarnesvogs ehf. um að Gourmet ehf. yrði borið út úr fasteign Arnarnesvogs við Ránargrund 4 í Garðabæ, þar sem veitingastaðurinn Sjáland er til húsa. Samkvæmt úrskurði Landsréttar fær Gourmet að vera áfram í húsnæðinu.
Arnarnesvogur vildi rifta leigusamningi við Gourmet, sem rekur veitingastaðinn. Héraðsdómur féllst á þá kröfu í júní, en í úrskurði Landsréttar kom fram að Arnarnesvogi hefði, eins og á stóð, ekki verið heimilt, á grundvelli kröfuréttar um tillitsskyldu, að nýta samningsbundinn rétt sinn til að rifta samningnum.
Landsréttur féllst því ekki á kröfu Arnarnesvogs um að Gourmet yrði með beinni aðfarargerð borinn út úr fasteigninni að Ránargrund 4. Þetta kemur fram í úrskurði Landsréttar frá 2. september.
Fram kemur í úrskurði héraðsdóms frá því í júní, að Gourmet hafi sent tölvupóst til forsvarsmanna Arnarnesvogs 15. október 2020 þar sem því var lýst að Gourmet hefði lítið sem ekkert getað notað veislusal húsnæðisins til veisluhalda vegna kórónuveirufaraldursins og samkomutakmarkana. Þá hefði velta veitingastaðarins minnkað um 90% vikurnar frá lokum september 2020 þegar sóttvarnaaðgerðir voru hertar. Því óskaði Gourmet eftir því að Arnarnesvogur gæfi 50% afslátt af leiguverði í september, október, nóvember og desember 2020. Í póstinum var einnig vísað til athugasemda við ástand húsnæðisins og óskað eftir upplýsingum um stöðu á úrbótum sem Arnarnesvogur hafði lofað, m.a. vegna ástands hurða, hjólastólaaðgengi og sprungu á klæðningu húss.
Þá segir í úrskurði héraðsdóms, að Arnarnesvogur hafi ekki orðið við beiðninni um helmingsafslátt, en í nóvember 2020 var samið um að húsaleigu vegna október, nóvember og desember skyldi skipt í þrennt. Arnarnesvogur hélt því fram að Gourmet hefði bæði greitt seint og illa allt árið 2021 og að ítrekað hefði þurft að ýta á eftir leigugreiðslum.
Svo fór að Arnarnesvogur skoraði á Gourmet að greiða ógreidda húsaleigu fyrir desember 2020 og janúar til febrúar 2022 með greiðsluáskorun 21. febrúar 2022. Nam krafan þá samtals 9.210.731 krónu. Í úrskurði Landsréttar kemur fram að ýmis samskipti hafi átt sér stað milli starfsmanna félaganna á milli 23. febrúar og 15. mars. Gourmet innti af hendi innborgun á skuldina 8. mars en með yfirlýsingu 23. mars rifti Arnarnesvogur leigusamningnum.
Gourmet heldur því fram að í kjölfar greiðslu 23. mars á vangreiddri leigu fyrir desember 2020 og janúar til febrúar 2022 hafi Arnarnesvogi verið óheimilt að rifta samningnum. Hafi í kjölfar greiðslunnar, sem barst skömmu fyrir þann tíma er riftunaryfirlýsingin var birt fyrirsvarsmanni Gourmet, ekki legið fyrir nein vanskil. Ekki hafi því verið lögmætar forsendur fyrir riftuninni.
Sem fyrr segir, þá komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að Arnarnesvogi hafi ekki verið heimilt að rifta samningunum með fyrrgreindri yfirlýsingu. Var því ekki fallist á kröfu Arnarnesvogs um að Gourmet yrði borinn út úr fasteigninni með beinni aðfarargerð.