Hjólar í skort á hjólareinum í borginni

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd/Aðsend

„Málið er að í ýmsum samþykktum stefnum borgarinnar, allt frá 2002, er kveðið á um að leggja skuli hjólareinar þegar nýjar götur eru lagðar eða eldri götur endurgerðar. Það hefur hins vegar ekki gengið eftir.“

Þetta segir Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í samtali við mbl.is. 

Kjartan flutti tillögu fyrir borgarstjórn í gær þar sem hann fór fram á það að við hönnun nýrra gatna og endurgerð eldri gatna í Reykjavíkurborg verði alltaf leitast við að leggja sérmerktar hjólareinar milli götu og gangstéttar þar sem aðstæður leyfa.

Á fundi borgarstjórnar í gær var samþykkt að vísa tillögunni til umhverfis- og skipulagsráðs.

Ekki nægilegt tillit tekið til hjólreiðafólks

Í sumar hef ég kynnt mér ýmsar gatnaframkvæmdir, sem farið hafa fram í borginni undanfarin ár, og séð að ekki er farið eftir þessari stefnu. Það er nefnilega eitt að samþykkja orð á blaði og annað að koma þeim í framkvæmd,“ segir Kjartan sem harmar það að ekki hafi verið tekið fyrr í taumanna. 

„Það er hreinlega bara eins og þetta gleymist. Þetta er bara stundum og stundum ekki í stað þess að hafa þetta sem reglu,“ bætir Kjartan við með von um að tillaga sín eigi eftir að skila sér í auknu aðgengi fyrir hjólreiðafólk.

Kjartan viðurkennir þó að á undanförnum áratugum hafi aðstæður fyrir hjólreiðafólk í Reykjavík verið bættar með margvíslegum hætti en segir þó að alltaf megi gera betur.

Þá segir hann Reykjavík vera á góðri leið með að ná markmiði sínu um að verða að hjólaborg á heimsmælikvarða en til þess þurfi að taka tillit til hjólandi vegfarenda við hönnun gatnamannvirkja.

Þó eru dæmi um að götur, nýjar og gamlar, séu hannaðar án þess að fullnægjandi tillit sé tekið til hjólreiðafólks. Æskilegt er þó að slíkt verði skoðað og metið hverju sinni, hvort sem um er að ræða hönnun á nýrri götu eða endurgerð eldri götu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert