„Húsnæðið sprengt utan af sér“

Samtökunum er betur borgið í hinu nýja húsnæði.
Samtökunum er betur borgið í hinu nýja húsnæði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Starfsemi samtakanna hefur einfaldlega sprengt húsnæðið sem við vorum í á Baldursgötu 7 utan af sér og eiginlega strax á árunum 2019 og 2020 var þetta orðið of lítið húsnæði,“ segir Kristín Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Píeta-samtakanna.

Mannúðarsjóður þriðju stúku Oddfellow-reglunnar, Hallveig, hefur ásamt fleirum gert Píeta-samtökunum kleift að flytja í nýtt húsnæði að Amtmannsstíg 5a, sem formlega var tekið í notkun í dag.

Edda Björgvinsdóttir leikkona ánafnaði samtökunum styrk í minningu Gísla Rúnars …
Edda Björgvinsdóttir leikkona ánafnaði samtökunum styrk í minningu Gísla Rúnars Jónssonar. Frá vinstri: Björgvin Franz Gíslason og dóttir, Snædís Ögn Flosadóttir, Arna Pálssdóttir og Sigríður B. Þormar, formaður Píeta-samtakanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil fjölgun

„Staðreyndin er sú að skjólstæðingum okkar hefur fjölgað það mikið milli ára og fjöldi þeirra hefur tvöfaldast síðan 2019,“ segir Kristín og bætir við að ekki hafi verið um annað að ræða en að flytja.

Oddfellowstúkan Hallveig hafi séð hvernig aðstæður væru og var ákveðið í tilefni af 100 ára afmæli hennar að styrkja verkefnið.

„Þau lögðu gríðarlega vinnu í þetta,“ segir hún og bætir við að hópur fólks úr samtökunum hafi daglega mætt í vinnugöllum á Amtmannsstíg, rifið upp gólf og innréttingar og gert húsið að hlýlegum stað. „Ég segi ekki að þeir hafi verið hér nótt og dag,“ segir hún en einn Oddfellow-maður hafi sagst ánægður að vera loksins mættur í húsnæðið á tveimur en ekki fjórum fótum.

Vilja hafa hlýlegt umhverfi

„Það er hluti af hugmyndafræði samtakanna er að bjóða fólki inn í hlýlegt og heimilislegt umhverfi. Eins og að fara til ömmu eða Stínu frænku. Það eru ekki langir hvítir gangar og fólk í sloppum,“ segir Kristín.

Fjögur viðtalsherbergi eru í húsnæðinu, skrifstofur, móttökuherbergi og fundarherbergi. Nýir skjólstæðingar voru hátt í 800 árið 2021 að sögn Kristínar og því ljóst að fleiri séu meðvitaðir um starfsemi samtakanna. 

„Þetta er gjaldfrjáls þjónusta, meðferðarþjónusta, sem er samþykkt af landlækni og meðferðaraðilum,“ segir hún. Að vinnunni kemur þverfaglegt teymi og því sé metið í hverju og einu tilfelli hvað hentar hverjum einstaklingi best.

Edda Björgvinsdóttir leikkona ánafnaði samtökunum styrk í minningu Gísla Rúnars Jónssonar við opnun húsnæðisins í dag. Þá héldu Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og stórsír Oddfellowreglunnar, Guðmundur Eiríksson, ávörp ásamt formanni Hallveigar, Þóri Haraldssyni.

Embætti land­lækn­is bend­ir á að mik­il­vægt sé að þeir sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir segi ein­hverj­um frá líðan sinni, hvort sem er aðstand­anda eða hafi sam­band við Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717, eða á net­spjalli 1717.is, við hjúkr­un­ar­fræðing í net­spjalli á heilsu­vera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-sam­tak­anna s. 552-2218. Píeta-sam­tök­in bjóða einnig upp á ráðgjöf og stuðning fyr­ir aðstand­end­ur þeirra sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir.  

Fyr­ir þau sem misst hafa ást­vin í sjálfs­vígi bend­ir land­læknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorg­armiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-sam­tök­un­um í síma 552-2218.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ávarpaði samkomuna.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ávarpaði samkomuna. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert