„Kerfið er að molna“

Ragnar Freyr Ingvarsson.
Ragnar Freyr Ingvarsson.

„Það er víða pottur brotinn. Eiginlega sama hvar drepið er niður fæti, kerfið er að molna undan okkur,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur, um stöðu heilbrigðiskerfisins í viðtali í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.

Í viðtalinu segir Ragnar að sérgreinalæknar á stofum hafi „verið hornkerlingar í íslensku heilbrigðiskerfi um áratugaskeið. Það var sérstaklega ljóst í stjórnartíð fyrrverandi heilbrigðisráðherra, þar sem sérfræðilæknar fengu aðeins að hitta hana einu sinni. Þeir fengu aldrei að koma að borðinu við neinar stefnumarkandi ákvarðanir um hvernig best og hagkvæmast væri að veita þjónustuna,“ segir Ragnar og bætir við að það sé ótrúlegt. 

Langstærsta þjónustueiningin í heilbrigðiskerfinu

Hann bendir á, að læknar á stofum séu ekki aðeins stærsta þjónustueiningin í heilbrigðiskerfinu heldur sú langstærsta. „Við sinnum 500.000 læknisverkum á ári en einungis 5% af peningum til heilbrigðismála renna í þetta,“ segir Ragnar jafnframt, en auk þess að vera með annan fótinn á Landspítala rekur hann auk þess eigin stofu í Heilsuklasanum.

„Við sjáum næstum fjórum sinnum fleiri sjúklinga á stofum heldur en fara á göngudeildir á Landspítala. Við sjáum næstum tvisvar sinnum fleiri en fara á Heilsugæsluna á höfuborgarsvæðinu á hverju ári,“ fullyrðir Ragnar í viðtalinu við Læknablaðið.

Áhrifaleysið sé því ótrúlegt og skrítið að niðurstaða hafi ekki fengist í hvernig haga eigi hlutum.

Þurfa líka að fjármagna kerfið

Þá tekur Ragnar fram í viðtalinu, að það séu liðin þrjú ár og sjúklingar séu löngu orðnir vanir því að hér þurfi að greiða aukagjöld, viðbótargjöld og óumsamin gjaldskrárverk. Hér séu skurðaðgerðir gerðar framhjá kerfinu, liðskipti, efnaskiptaaðgerðir.

„Ég velti fyrir mér hvort komið sé rof í samfélagssáttmálann um norrænt velferðarkerfi. En á Íslandi höfum við gleymt þeim hluta að við þurfum líka að fjármagna kerfið.“ Hann segir að langt sé á milli lækna og viðsemjenda.

„Ríkisvaldið hefur allt aðra sýn á þjónustuna en við sem veitum hana. Það er eins og það sé hljóðmúr á milli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert