Sýningin World Press Photo samanstendur af verðlaunaðri myndrænni blaðamennsku ársins 2021 auk stafrænna frásagna.
Sýningin opnaði í dag á göngugötu á 1. og 2. hæð Kringlunnar. Hún er opin á afgreiðslutíma verslunarmiðstöðvarinnar og mun standa yfir til 28.september næstkomandi.
Mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, opnaði sýninguna formlega við hátíðlega athöfn en að þessu sinni tóku þátt 4.066 atvinnuljósmyndarar frá 130 löndum og sendu inn 64.823 ljósmyndir, að því er segir í tilkynningu.
Dómnefndin veitti 44 ljósmyndurum verðlaun í átta efnisflokkum og koma verðlaunahafar frá 24 löndum. Ljósmynd sem dómnefnd útnefndi sem fréttaljósmynd ársins var tekin af kanadíska ljósmyndaranum Amber Bracken fyrir The New York Times. Myndin sýnir kjóla hanga á krossum meðfram vegkanti, til að minnast barna sem létust í skólanum Kamloops Indian Residential.