Aldrei þurft að eyðileggja kafbát

Kevin Harrington yfirmaður hjá bandaríska sjóhernum í flugskýli stendur fyrir …
Kevin Harrington yfirmaður hjá bandaríska sjóhernum í flugskýli stendur fyrir framan vélina sem notuð er til kafbátaeftirlits. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég hef aldrei þurft að eyðileggja kafbát, sem betur fer ekki,“ segir Kevin Harrington, yfirmaður hjá bandaríska sjóhernum. Bandaríski sjóherinn er með kafbátaeftirlit sem stjórnað er frá Keflavík og sem stendur notar hann til þess tvær P-8 vélar.

Alls eru nú 100 manns á vegum bandaríska sjóhersins í Keflavík en fyrir örfáum vikum voru hér um 275 manns á vegum hersins og níu flugvélar við kafbátaeftirlit.

Harrington sagði mbl.is frá vélunum en þær voru hannaðar til að leita á stóru hafsvæði, finna kafbáta og grípa inn í, gerist þess þörf. En líkt og áður segir hefur Harrington aldrei þurft að grípa til aðgerða á borð við að eyðileggja kafbát.

Ein af tveimur P-8 vélunum sem nú eru á Keflavíkurflugvelli.
Ein af tveimur P-8 vélunum sem nú eru á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eftirlitið hafi ógnandi áhrif

„En ég get sagt þér að sá ótrúlegi eiginleiki bandalagsþjóða Atlantshafsbandalagsins að geta gripið til slíkra ráðstafana hefur ógnvekjandi áhrif og það er nokkurn veginn tilgangurinn,“ segir Harrington í samtali við mbl.is.

Vélin að innan.
Vélin að innan. mbl.is/Kristinn Magnússon

Harrington hefur verið á Íslandi í fjóra mánuði en bandarískar hersveitir eru hér á landi í sex mánuði í senn og á hann því tvo mánuði eftir.

„Mér finnst ég mjög velkominn hérna á Íslandi, mig langar að koma aftur hingað með börnin mín, fara með dóttur mín á hestbak og með strákana mína í fjallgöngur,“ segir Harrington.

Staðsetning Íslands mjög hentug

Harrington bendir á hve heppilega Ísland er staðsett. „Staðsetningin er mjög hentug því hún myndar eins konar brú milli Norður-Ameríku og Evrópu. Tilgangur vélanna okkar er að leita að kafbátum til að tryggja að sæstrengir og samskipti séu opin. Það hefur jákvæð áhrif á öryggi og farsæld Evrópu. Auk þess tryggir staðsetningin að við getum teygt okkur um allt Norður-Atlantshafið. Við náum til nyrsta hluta Noregs og alla leið til Nýfundnalands.“

Flugher bandaríska sjóhersins.
Flugher bandaríska sjóhersins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Harrington segist ekki geta tjáð sig um einstaka mál úti í heimi og spurður hvort að ástæða sé til að taka upp fasta viðveru hersins á Íslandi vegna ástandsins í Evrópu segir hann það vera mikilvægt að tryggja öryggi sæstrengja, óháð atburðarásinni í Austur-Evrópu.

„Margt af því sem við gerum hér, líkt og loftrýmisgæslan, var til staðar áður en atburðarásin hófst í Austur-Evrópu og mun halda áfram út í gegn,“ segir hann.

Vélin er ansi rúmgóð og fer almennt í átta til …
Vélin er ansi rúmgóð og fer almennt í átta til tíu klukkustunda leitarferðir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Top Gun kveikir áhuga

Að lokum spyr blaðamaður á léttu nótunum hvort hann haldi að nýjasta Top Gun-myndin hafi haft áhrif á áhuga fólks á flugher bandaríska sjóhersins. Harrington hlær og segist vona það.

Hann bendir á að fyrri myndin hafi haft þau áhrif að fjöldi fólks skráði sig í flugherinn. Sjálfur er hann flugmaður og segir fyrri myndina hafa haft áhrif á hann sjálfan.

„Já hún gerði það að vissu leyti, sjálfur flýg ég reyndar ekki F-14. Þessi vél er örlítið þægilegri, útbúin rúmum, ofni og ísskáp,” segir Harrington um F-8 vél bandaríska sjóhersins en Tom Cruise flýgur F-14 herþotu í Top Gun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert