Að komast í gott myrkur

Fyrir framan risa-útvarpssjónaukaröðina ALMA í ríflega 5.000 metra hæð yfir …
Fyrir framan risa-útvarpssjónaukaröðina ALMA í ríflega 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli í Chile. Sævar er tengiliður ESO, Stjörnustöðvar Evrópulanda á suðurhveli, á Íslandi og var þarna á ferðalagi um stjörnustöðvar ESO í Chile. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta byrjaði bara mjög snemma. Ég man eftir því að hafa verið að rölta í skólann þegar ég var sex ára, í fyrsta bekk í Engidalsskóla í Hafnarfirði, og horfði þá á stjörnunar á himninum,“ segir Sævar Helgi Bragason, vísindamiðlari, dagskrárgerðarmaður, rithöfundur, jarðfræðingur og jarðarbúi.

Sævar ætti að vera mörgum lesendum kunnur þar sem hann hefur undanfarna tvo áratugi dúkkað upp í flestum fjölmiðlum landsins og verið iðinn við að benda lesendum, hlustendum og áhorfendum þeirra á komandi sól- eða tunglmyrkva, vænlega tíma til norðurljósaskoðunar eða bara benda á einhver merkileg fyrirbæri í himingeimnum, jafnvel eitthvað sem gerist á morgun og gerðist síðast á 13. öld og gerist ef til vill ekki næst fyrr en árið 2550 svo eitthvað sé nefnt.

Hafnfirðingurinn, sem nú er brottfluttur, rifjar áfram upp æskuár sín og nefnir sumarbústaðaferðir að vetrarlagi með foreldrum sínum og afa og ömmu þar sem vel sá til stjarna og norðurljósa í myrkrinu. Hin endanlega opinberun himingeimsins hafi þó vitrast Sævari þegar hann fékk að líta óravíddirnar gegnum sjónauka.

Álpaðist inn í miðlun

„Ég fékk að kíkja í sjónaukann hjá frænda mínum, Snævari Guðmundssyni. Og þegar ég sá Satúrnus og tunglið og allt þetta í fyrsta skipti gegnum sjónauka var bara ekkert aftur snúið,“ rifjar Sævar upp og kannski engin furða að viðurnefnið Stjörnu-Sævar hafi límst við hann fyrir þó nokkrum árum.

Sævar, Þórhildur, Jökull Máni og Arnór Bragi á ferðalagi í …
Sævar, Þórhildur, Jökull Máni og Arnór Bragi á ferðalagi í Commissey í Burgundy-héraðinu franska í maí. „Við vorum þarna í fjölskyldufríi ásamt nokkrum öðrum Íslendingum,“ segir Sævar af ferðalaginu. Ljósmynd/Aðsend

„Svo jókst áhuginn bara eftir því sem ég lærði meira um þetta og nú er ástríðan komin á það stig að mig langar bara til að segja öllum frá því hvað þetta er merkilegt og skemmtilegt,“ segir Sævar sem þó lagði ekki til atlögu við stjarneðlisfræði eða önnur geimvísindi í háskólanámi sínu heldur var öllu jarðbundnari.

„Ég er með BS-gráðu í jarðfræði. Það var engin stjörnufræðilína eða neitt svoleiðis í boði, nema sem framhaldsnám. Þannig að ég ætlaði að mennta mig í reikistjörnujarðfræði, vera sérfræðingur í Venusi og Mars og tunglinu og svo framvegis,“ segir Sævar frá. „Slíkt nám er til dæmis í boði í Bandaríkjunum þar sem ég þekki mjög marga prófessora á þessu sviði, í reikistjörnufræðum. Svo greip lífið bara inn í og tók aðra stefnu. Ég álpaðist inn í miðlun og hef jú verið að segja frá þessu í fjölmiðlum og kenna þetta,“ heldur Sævar áfram en hann ritstýrir Stjörnufræðivefnum, stjornufraedi.is.

Matargat og vísindanörd

Honum auðnaðist þó að taka þrjú námskeið í stjarneðlisfræði í háskólanum en er annars sjálflærður í þeim vísindum sem eiga hug hans allan. „Ég er skokkari, matargat og ástríðufullt vísindanörd,“ segir Sævar glettnislega af lífi sínu nú til dags en þeim Þórhildi Fjólu Stefánsdóttur, sambýliskonu hans á besta stað í Fossvogi, sem starfar hjá hugbúnaðarlausnafyrirtækinu Wise, þykir fátt skemmtilegra en að borða góðan mat og drekka góða drykki.

„Þarna er ég á rölti með Office-leikaranum Rainn Wilson og …
„Þarna er ég á rölti með Office-leikaranum Rainn Wilson og Gail Whiteman, prófessor í sjálfbærni og loftslagsfræði við Exeter-háskóla í Bretlandi. Ljósmynd/Aðsend

„Við ferðumst meira að segja til að borða og erum á leið til Kaupmannahafnar bara til að borða á veitingastaðnum Geranium sem er þriggja Michelin-stjarna staður og var nýlega útnefndur veitingastaður númer eitt í heiminum,“ segir Sævar frá en hann er faðir tveggja drengja, þeirra Arnórs Braga, 11 ára, úr fyrra sambandi og Jökuls Mána sem er eins og hálfs árs, sonur þeirra Þórhildar. Systkini Sævars eru Arnar Ingi og Karen Ýr og foreldrarnir Bragi Guðmundsson og Hjördís Sævarsdóttir.

Sævar hefur um dagana kynnst fjölda vísindafólks með því að sækja ráðstefnur víða um heim. „Ég þekki fólk sem er að vinna við Marsleiðangrana, könnun reikistjarna í ytra sólkerfinu, Hubbles- og James Webb-sjónaukana. Þetta er frekar lítið samfélag og fólk þekkist býsna vel. Einn af mínum bestu vinum er prófessor við Leiden-háskólann í Hollandi, Pedro Russo, og hann er vel tengdur. Þegar maður hittir hann hittir maður aragrúa stjarnvísindafólks hvaðanæva,“ segir Sævar af ástríðu sinni.

Faraldurinn setti strik í reikninginn

Hann er nýhættur í starfi við losunarbókhald hjá Umhverfisstofnun „en að öðru leyti hef ég bara verið að skrifa bækur, búa til sjónvarp, halda fyrirlestra og sýna fólki himininn, ég hef lifað á því undanfarin ár. Ég ætlaði að vera voðalega sniðugur og setja ekki öll eggin í sömu körfuna en svo kom Covid og þá hrundu öll egg úr öllum körfum. Það mátti ekki heimsækja skóla og ekki koma neins staðar fram og allt hvarf á einu bretti svo ég sótti um hjá Umhverfisstofnun og fékk þetta starf sem ég er ótrúlega þakklátur fyrir og hef lært ótrúlega margt á stuttum tíma,“ segir Sævar sem nú rær þó á ný mið.

Sævar tekur við vísindamiðlunarverðlaunum RANNÍS árið 2021 úr hendi Lilju …
Sævar tekur við vísindamiðlunarverðlaunum RANNÍS árið 2021 úr hendi Lilju Alfreðsdóttur, þáverandi menntamálaráðherra. Fyrir aftan stendur Árni Snorrason veðurstofustjóri. Ljósmynd/Aðsend

Hann er á leið til KPMG til liðs við sjálfbærniteymið þar á bæ sem hefur á sinni könnu að fræða fyrirtæki um samfélagslega ábyrgð, umhverfismál og ábyrgð í rekstri á þeim vettvangi. „Þannig að ég tek ýmis störf að mér ofan á allt annað sem ég er að grúska,“ segir Sævar.

Ísland er að hans mati heppilega staðsett er að því kemur að fylgjast með gangi mála á himnum. „Við búum undir norðurljósabelti sem býður upp á mikið sjónarspil og svo þarf ekki að fara langt út úr bænum til að komast í gott myrkur svo við erum ágætlega stödd,“ segir stjarnvísindamaðurinn sem, eins og nefnt var hér í upphafi, hefur frætt Íslendinga um gang himintungla gegnum fjölmiðla í tvo áratugi.

„Ég bara veit það ekki“

„Ég fór í mitt fyrsta sjónvarpsviðtal í Kastljósi þegar ég var 15 eða 16, það var árið 2000 og svo jókst þetta bara hægt og bítandi. Stjarneðlisfræðingar uppi í háskóla mæltu með mér sem viðmælanda þótt ég hefði nú ekki einu sinni verið í námi hjá þeim og svo vatt þetta upp á sig. Mér var sagt að það væri hægt að skilja mig og ég talaði mannamál,“ segir Sævar sem að viti blaðamanns er allvel máli farinn.

„Þessi lubbi þarna er reyndar sonur minn, Arnór Bragi, sem …
„Þessi lubbi þarna er reyndar sonur minn, Arnór Bragi, sem ákvað að safna hári,“ svarar Sævar, spurður hvaða stúlka sé með honum á myndinni. „Hann er reyndar búinn að klippa sig núna. Besta feðgaferð sem við höfum farið í.“ Ljósmynd/Aðsend

Annað er auðvitað ótækt en að kasta fram einni mestu klisjuspurningu sólkerfisins. Er líf á Mars? „Ég skal koma með klisjusvarið sem er ógeðslega leiðinlegt: Ég bara veit það ekki,“ segir Sævar og hlær. „Þar er fullt af spennandi vísbendingum um rennandi vatn á yfirborðinu og orku sem hefði getað viðhaldið lífi. Það er ekkert útilokað að það hafi verið líf þar þótt við höfum aldrei fundið neitt, þess vegna erum við að leita,“ bætir hann við.

Eðlisfræðingurinn Stephen Hawking heitinn vakti heimsathygli með skrifum sínum og fyrirlestrum um eðlisfræði stjarnanna, líf á öðrum stöðum í alheiminum og ótalmargt fleira. Hann sagði í fyrirlestri ekki löngu áður en hann lést árið 2018 að væri vitsmunalíf annars staðar, sem byggi yfir tækni til að geta komist til jarðarinnar, vildum við ekki fá þá heimsókn. Hvað sýnist Sævari um þessi orð?

„Það gæti auðvitað vel verið rétt. Þetta er bara eins og að vera staddur á ókunnum stað, segjum bara í frumskógi til dæmis. Þú færir þá ekkert að hrópa út í skóginn og vekja athygli einhverra vera á þér sem gætu hæglega ráðist á þig. Hann sagði að það væri skynsamlegt að vera ekkert að láta vita af okkur, hægt sé að finna okkur hvort sem er. Við höfum óafvitandi verið að dreifa hljóðum frá okkur út í geiminn sem er hægt að hlera,“ svarar Sævar.

Vantrúaður á sögur

Hann segir að utanjarðarmannkyn sem leitaði til jarðar gæti tæplega verið að sækjast eftir öðru en þekkingu. „Ef verið væri að leita að auðlindum væru þær auðlindir hvort sem er til í þeirra sólkerfi líka og mun styttra að fara. Þó eru kenningar uppi um að þarna úti séu samfélög sem reyna að leggja undir sig alla vetrarbrautina okkar. Þetta tekur ekkert langan tíma þannig séð, kannski nokkrar milljónir ára sem er kannski langur tími á okkar mælikvarða en ekki á mælikvarða vetrarbrautarinnar,“ segir Sævar.

„Þarna er ég að kveðja Gettu betur eftir að hafa …
„Þarna er ég að kveðja Gettu betur eftir að hafa unnið við spurningakeppnina í fimm ár sem dómari og spurningahöfundur, oftast bak við tjöldin.“ Ljósmynd/Aðsend

Hvað með endalausar sögur og skýrslur um fljúgandi furðuhluti sem margar hverjar hafa blásið höfundum kvikmynda og sjónvarpsþátta í brjóst um dagana? Eiga þessi fyrirbæri sér alltaf eðlilegar skýringar?

„Ég má ekki tjá mig um þetta,“ segir Sævar og skellihlær. „Nei, svona í alvöru talað þá er ég mjög vantrúaður á allar þessar sögur. Kannski að miklu leyti vegna þess að ég fæ sjálfur sífellt sögur frá fólki, myndir og upplýsingar um hluti sem fólk hefur séð á himninum,“ segir hann og bætir því við að langoftast megi finna skýringar þegar farið sé að kafa ofan í málin. „Maður finnur eiginlega alltaf skýringar sem eru óþolandi jarðneskar og þar með hundleiðinlegar,“ segir hann kíminn.

Hrokafullt að telja okkur ein

„Ég held að það sé mjög hrokafullt að halda því fram að við séum ein í alheiminum,“ svarar Sævar, spurður sérstaklega út í það mál, „og að við búum yfir einhverri sérstöðu er algjör misskilningur. Það eru svo ótrúlega margar stjörnur þarna úti, svo ótrúlega margar plánetur að það er eiginlega útilokað að það séu ekki einhverjar aðrar verur þarna úti, hvort sem þær eru komnar lengra eða skemur á þróunarveginum en við, ég hef ekki hugmynd um það.

„Sólkerfið er léttlestrarbók fyrir krakka á aldrinum 6-7 til svona …
„Sólkerfið er léttlestrarbók fyrir krakka á aldrinum 6-7 til svona 12 ára úr flokki sem kallast Vísindalæsi. Í ár kom út önnur bók í sama flokki, Umhverfið, og svo er ég að vinna að fleiri léttlestrarbókum um vísindi fyrir krakka.“ Ljósmynd/Aðsend


En það er mjög hrokafullt að halda því fram að við séum ein og ég held reyndar að mjög fáir geri það í dag,“ segir Sævar Helgi Bragason að lokum, kallaður Stjörnu-Sævar sem verður að teljast viðurnefni með rentu á þetta geðþekka matargat og vísindanörd sem heldur betur hefur lagt sitt lóð á vogarskálar stjörnufræða til handa almenningi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert