„Gefum aldrei upp hver staðan er í rannsókninni“

Starfsemi meðferðarheimilisins að Laugalandi, áður Varp­holti, á árunum 1997 til …
Starfsemi meðferðarheimilisins að Laugalandi, áður Varp­holti, á árunum 1997 til 2007 er til rannsóknar hjá Gæða- og eftirlitsstofnun veðferðarmála. Samsett mynd

„Við gáfum náttúrulega aldrei upp og gefum aldrei upp hver staðan er í rannsókninni bara til þess að vernda alla hagsmuni,“ segir Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Gæða- og eft­ir­lits­stofn­un­ar vel­ferðar­mála um rannsókn á vegum stofnunarinnar á meðferðar­heim­ilinu Lauga­landi.

Markmið rannsóknarinnar er að athuga hvort og þá í hvaða mæli börn sem vistuð voru á meðferðarheimilinu hafi sætt illri meðferð, andlegu eða líkamlegu ofbeldi, á meðan dvöl þeirra stóð. 

Tvíburasysturnar Gígja og Brynja Skúladætur, konur sem voru vistaðar á heimilinu á sínum yngri árum, hafa gagnrýnt framgang og vinnslu rannsóknarinnar en þær segjast hafa upplifað smánun og vanvirðingu þegar þær reyndu að nálgast upplýsingar um stöðu hennar frá GEV.

Hafi svarað fyrirspurnum um tafir

Herdís tók við sem nýr forstjóri Gæða- og eft­ir­lits­stofn­un­ar í apríl en þá var skýrslan enn þá í vinnslu. Hún segist alltaf hafa svarað erindum um meintar tafir, en eins og áður hefur komið fram átti rannsókninni að ljúka fyr­ir árs­lok 2021.

„Ég hef svarað öllum spurningum frá því í vor að ég gæti ekki gefið út tímasetningar fyrir útgáfu skýrslunnar. En ég lofaði því þó að þegar lægi fyrir hvenær við gætum gefið út skýrsluna, þá myndi ég gefa út dagsetningu hennar,“ segir Herdís.

„Þessi rannsókn er geysilega umfangsmikil og hefur verið vandvirknislega unnin af nefndinni,“ bætir Herdís við og minnir á að hún hafi sent fyrrum vistmönnum tölvupóst þann 29. ágúst þess efnis að skýrslan kæmi út um miðjan september.

Niðurstöðurnar ekki lykilatriði

Gígja segir hins vegar að framkoma stofnunarinnar hafi eyðilagt upplifun hennar af rannsókninni og nefnir að niðurstöðurnar séu ekki lykilatriði heldur ferlið sjálft. Þá gagnrýndi Gígja að hún og aðrar konur sem voru vistaðar á Laugalandi hafi ekki fengið upplýsingar um rannsóknina sem þær eru virkir þátttakendur í.

Spurð hvort Herdís hefði haft samband við Gígju og Brynju, sem voru báðar vistaðar á Laugalandi, eftir að þær komu nýverið fram í fjölmiðlum og sögðu sína skoðun á málinu svarar Herdís neitandi og segist hafa verið í fríi erlendis og ekki fylgst með.

„Ég var í fríi erlendis og þetta hefur því farið fram hjá mér. Ég var reyndar hissa á að fá ekki svar frá þeim þegar ég sendi tölvupóst en það er líka allt í lagi,“ segir Herdís og bætir við að öllum sé frjálst að hafa samband.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert