Mannabreytingar hafa verið gerðar meðal lykilstjórnenda hjá Sóltúni heilbrigðisþjónustu ehf. (SH) og dótturfélögum og taka þær gildi 1. nóvember. SH rekur Sóltún hjúkrunarheimili, Sólvang hjúkrunarheimili, Sóltún heima, Sóltún heilsusetur og Sólstöður.
Halla Thoroddsen verður nýr forstjóri SH. Dótturfyrirtæki SH eru Sóltún öldrunarþjónusta ehf. og Öldungur hf. Halla var áður framkvæmdastjóri Sóltúns öldrunarþjónustu sem rekur Sólvang hjúkrunarheimili, Sóltún Heima og Sóltún Heilsusetur á Sólvangi.
Anna Birna Jensdóttir, sem hefur verið framkvæmdastjóri Öldungs hf. í rúm 20 ár, eða frá stofnun Sóltúns hjúkrunarheimilis, hættir störfum sem framkvæmdastjóri en tekur við sem starfandi stjórnarformaður hjá SH. Þórir Kjartansson, sem hefur verið stjórnarformaður Öldungs undanfarin 13 ár, víkur sem stjórnarformaður en situr áfram í stjórn félagsins ásamt Arnari Þórissyni.
„Þegar eftirlaunaaldurinn er í augsýn er gott að standa upp og rýma til fyrir yngri kynslóðum. Við höfum verið svo lánsöm að fá í okkar raðir alveg afbragðsfólk sem tekur núna við frekari uppbyggingu Sóltúnsfélaganna. Verkefnin hafa vaxið jafnt og þétt og reksturinn gengið almennt vel,“ segir Anna Birna en ítarlega er rætt við hana í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.