Kona var handtekin eftir að hafa ekið utan í bifreiðar og rafmagnskassa í Reykjavík, og stöðvuð af samborgurum sínum. Var málið afgreitt á lögreglustöð og konan látin laus að lokinni sýnatöku.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Frá því klukkan 11 í morgun hefur embættið sinnt 47 málum. Töluvert hefur verið um vandræði í umferðinni.
Lögregla stöðvaði akstur bifreiðar eftir eftirför úr Vogahverfi upp í Höfðahverfi. „Ökumaður hljóp undan laganna vörðum en náðist eftir stutta stund." Málið var svo afgreitt á lögreglustöð með sýnatöku og skýrslutöku.
Tilkynnt var um innbrot og þjófnað í fyrirtæki í Mjóddinni, einhverjar vísbendingar liggja fyrir og er málið í rannsókn.
Í hádeginu var ökumaður stöðvaður þar sem hann ók um í Höfðahverfi, en hann er grunaður um vímuakstur. Var hann handtekinn en látinn laus að sýnatöku og skýrslugjöf lokinni.