Enn er verið að rannsaka hvernig netárás á Tækniskólann bar að. Að sögn yfirkerfisstjóra skólans var skólinn krafinn um lausnargjald en ekki kom til greina að greiða það. Þá er hugsanlegt að kennsla kunni að tefjast á mánudaginn.
„Það er verið að reyna finna út hvenær þetta byrjaði og þá hugsanlega hvaðan þetta kom, en við erum ekki komin það langt,“ segir Tryggvi Jóhannsson, yfirkerfisstjóri hjá Tækniskólanum, í samtali við mbl.is. Bætir hann við að öryggisfyrirtækið Syndis aðstoði skólann við málið.
Árásin var framin snemma í gær, en truflanir höfðu orðið á innra neti skólans og í fyrstu var talið að um bilun væri að ræða. Eftir bilanagreiningu kom í ljós að um netárás var að ræða.
Að sögn Tryggva kröfðust tölvuþrjótarnir lausnargjalds. Segir hann að aldrei hafi komið til greina að greiða gjaldið og að skólinn sé með gott úrræði til vara.
„Við erum í mjög góðum málum og myndum aldrei koma til með að greiða einhverjum til að opna einhver gögn aftur. Við þurfum ekkert á því að halda. Við erum í ansi góðum málum en þetta gæti hugsanlega tafið kennslu á mánudag en vonandi ekki.“
Bætir hann við að nemendur muni fá send skilaboð í gegnum Innu ef kennsla tefst á mánudaginn.