Skúli metur tjón sitt vera 715 milljónir

Athafnarmaðurinn Skúli Gunnar Sigfússon, jafnan kenndur við Subway.
Athafnarmaðurinn Skúli Gunnar Sigfússon, jafnan kenndur við Subway. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Athafnarmaðurinn Skúli Gunnar Sigfússon, sem jafnan hefur verið kenndur við Subway, metur tjón sitt af málaferlum þrotabús EK1923 gegn einkahlutafélagi sínu, Sjöstjörnunni, samtals vera um 715 milljónir. Sveinn Andri Sveinsson, sem var skiptastjóri EK1923, hafði fyrir um tveimur árum betur gegn Sjöstjörnunni vegna fasteignaviðskipta sem EK1923 átti í áður en félagið var úrskurðað gjaldþrota.

Þetta er meðal þess sem má lesa úr úrskurðum og ákvörðunum dómstóla í máli Sjöstjörnunnar gegn endurskoðunarskrifstofunni KPMG og lögmannsstofunni Logos. Í vikunni hafnaði Hæstiréttur áfrýjunarbeiðni Sjöstjörnunnar eftir úrskurð Landsréttar sem vísaði kröfu gegn Logos frá dómi en eftir stóð krafan gegn KPMG.

EK1923-málið var höfðað í kjöl­far niður­stöðu Hæsta­rétt­ar í máli þrota­bús EK1923 (áður Eggert Kristjáns­son hf.) gegn Sjö­stjörn­unni vegna ráðstöf­un­ar á fast­eign EK1923 að Skútu­vogi 3 til Sjö­stjörn­unn­ar. Var Sjö­stjörn­unni gert að greiða 324 millj­ón­ir auk vaxta og málskostnaðar.

Málinu gegn Logos vísað frá en krafan á KPMG stendur

Skúli stefndi í kjölfarið KPMG og Logas, en Skúli taldi að ekki hafi verið rétt staðið að ráðstöf­un þess­ara fast­eigna á sín­um tíma og sök­in sé end­ur­skoðenda­skrif­stof­unn­ar. Var Logos hins veg­ar stefnt til vara og var haft eftir Skúla þegar málið var þingfest að þar væri horft til mögu­legr­ar ábyrgðar lög­manns­stof­unn­ar sem átti að gæta hags­muna Skúla og Sjö­stjörn­unn­ar, ef KPMG yrði sýknað á grund­velli fyrn­ing­ar á kröfu.

Bæði KPMG og Logos fóru fram á að málinu yrði vísað frá dómi. Héraðsdómur úrskurðaði í apríl að vísa skuli frá dómi öllum kröfum á Logos sem og kröfu um að viðurkennd yrði skaðabótaábyrgð KPMG. Var sú krafa byggð á því að Skúli taldi sig hafa orðið fyrir tjóni þegar fasteignar Sjöstjörnunnar á Selfossi, í Ölfusi og á Seltjarnarnesi voru kyrrsettar með kyrrsetningargerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við EK1923-málið.

Hins vegar var kröfu um að KPMG beri að greiða Sjöstjörnunni 715 milljónir í tengslum við fasteignaviðskiptin sem EK1923-málið snerist um ekki vísað frá.

Taldi vinnubrögð hafa verið verulega ábótavant

Taldi Skúli að vinnubrögð starfsmanns KPMG vegna skiptingar fasteignarinnar að Skútuvogi 3 úr Eggerti Kristjánssyni hf. árið 2014 hafi verið verulega ábótavant og í andstöðu við ákvæði í lögum um fasteignasölu og í lögum um endurskoðendur. Í dóminum kemur fram að Skúli telji að starfsmaður KPMG hafi ekki bent á að ráðstöfun eignarinnar gæti talist riftanleg eða að hún gæti leitt til þess að gjaldfærni hlutafélagsins minnkaði, en þetta hafi leitt til þess fjártjóns sem dómsmálið leiddi til.

Í kröfu Sjöstjörnunnar er listað niður að af þessum 715 milljónum séu 467,7 milljónir tilkomnar vegna þess höfuðstóls sem Sjöstjarnan þurfti að greiða þrotabúi EK1923, dráttarvaxta og málskostnaðar. Til viðbótar bætist 123,8 milljónir sem Sjöstjarnan hafi greitt Logos á árunum 2017-2021. Þá er að lokum krafist greiðslu vegna þóknunar sem sagt er að Sjöstjarnan hafi neyðst til að greiða Skúla upp á 124,4 milljónir til að halda honum skaðlausum þar sem hann bauð fram eignir sínar til kyrrsetningar vegna kröfu þrotabúsins á hendur Sjöstjörnunni.

Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms að öllu leyti, nema að lagt var fyrir héraðsdóm að taka til úrlausnar kröfuna um að viðurkenna skaðabótaábyrgð KPMG vegna tjóns af kyrrsetningu fasteignanna.

Segir dómara vanhæfan vegna ummæla sinna um dómarann

Sjöstjarnan óskaði þess að fá áfrýjunarleyfi hjá Hæstarétti og vísaði meðal annars til þess að einn dómari við Landsrétt væri vanhæfur þar sem Skúli hefði áður sett fram harða gagnrýni á störf eins dómarans í málinu. Er þar væntanlega vísað til Símonar Sigvaldasonar, en í grein á Vísi í maí í fyrra gagnrýndi Skúli Símon og sagði hann hafa opinberlega varið fyrrnefndan Svein Andra sem Skúli hafði tekist á við árin þar á undan bæði innan sem utan dómsala. Þá varði úrlausn málsins mikilsverða almannahagsmuni og hafi fordæmisgildi auk þess að dómurinn hafi verið rangur.

Hæstiréttur bendir í ákvörðun sinni á að Sjöstjarnan hafi fyrir Landsrétti ekki gert athugasemdir við að Símon kæmi að málinu. Þá segir dómurinn að sérstaka kæruheimild um það sem beiðni Sjöstjörnunnar lúti sé ekki að finna í öðrum lögum og er beiðni um kæruleyfi því hafnað.

Það liggur því fyrir að næsta skref þessa máls verður að óbreyttu að krafan gegn KPMG verður tekin fyrir efnislega í aðalmeðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert