Karl konungur III. kom oft til Íslands á yngri árum til laxveiða. Hann kom fyrst sumarið 1975 og veiddi í Hofsá í Vopnafirði í boði Skota, Booths að nafni, sem þá var með ána á leigu.
Karl, sem þá var titlaður prins af Wales, kom síðan á hverju sumri allt til ársins 1980, að því er segir í bók þeirra Einars Fals Ingólfssonar og Guðmundar Guðjónssonar um Hofsá og Sunnudalsá.
Karl veiddi 28 laxa í fyrstu veiðiferð sinni í Hofsá 1975. Að henni lokinni hélt hann til Reykjavíkur með flugi frá Vopnafirði.
Karl gekk m.a. á fund Geirs Hallgrímssonar þáverandi forsætisráðherra og áttu þeir um hálfrar stundar langan fund. Síðan var ekið með prinsinn um borgina og skoðaði hann m.a. Þjóðminjasafnið undir leiðsögn Þórs Magnússonar þjóðminjavarðar og Árbæjarsafn undir leiðsögn Nönnu Hermannsson minjavarðar og tveggja stúlkna í íslenskum búningum, þeirra Hrafnhildar Schram og Ingu Dóru Björnsdóttur.
Greinina í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu í dag en þar eru Íslandsheimsóknir Karls raktar og birtar myndir úr safni Morgunblaðsins.