Vopnaður karlmaður var handtekinn í húsgagnaverslun í austurborg Reykjavíkur um klukkan tólf í dag. Verslunin var lokuð en vegfarandi sem átti leið hjá veitti viðkomandi athygli, en hann var sofandi inni í versluninni. Maðurinn gistir nú fangageymslu en hann var ekki í góðu ástandi vegna áfengis- og vímuefnaneyslu.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Klukkan eitt í dag var karlmaður stöðvaður á ökutæki sínu í Hafnarfirði, en hann var án ökuréttinda og vopnaður rýtingi. Lögregla lagði hald á vopnið.
Þá var tilkynnt um umferðaróhapp á Miklubraut klukkan hálf tvö í dag. Karlmaður var handtekinn á vettvangi eftir að hafa reynt að flýja vettvang, en hann var undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Hann gistir hann nú fangageymslur.
Jafnframt var karlmaður handtekinn á Reykjanesbraut í dag vegna gruns um að hafa ekið undir áhrifum áfengis. Var hann látinn laus að lokinni sýnatöku.