Sólveig svarar samtökunum fullum hálsi

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar svaraði gagnrýninni í færslu á …
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar svaraði gagnrýninni í færslu á Facebook-síðu sinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar svaraði gagnrýni Samtaka kvenna af erlendum uppruna í færslu á Facebook-síðu sinni. 

Samtök kvenna af erlendum uppruna sjá ástæðu til að gagnrýna mig harðlega fyrir að segja satt frá,“ segir Sólveig þar og þvertekur fyrir það að hún hafi gerst skaðleg gegn baráttunni fyrir aðgengi að vönduðum íslensku námskeiðum af hendi atvinnurekanda.

Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi gagnrýndu ummæli Sólveigar Önnu er lutu að tillögum Eiríks Rögnvaldssonar, prófessor emeritus í íslensku. Ei­rík­ur lagði til að verka­lýðshreyf­ing­in gerði kröfu um það að fyr­ir­tæki byðu starfs­fólki að sækja ís­lensku­nám­skeið, á vinnu­tíma og þar af leiðandi á kostnað vinnu­veit­anda.

Sól­veig Anna var harðorð í garð Ei­ríks og sagðist hafa mik­il­væg­ari hluti að hugsa um.

Segist ekki vera óvinur erlendra kvenna

Þær virðast líta svo á að ég vilji standa í vegi fyrir því að aðflutt fólk læri íslensku eða fái til þess tækifæri. Og þær nota tækifærið á meðan að þær ráðast að mér til að mæra fræðimann sem hefur eftir því sem ég veit best aldrei gert neitt til að berjast fyrir bættum kjörum verkakvenna,“ tekur Sólveig fram í færslunni sinni. 

Þá bætir Sólveig við að henni finnist það leitt að samtökin bregðist harkalega við orðum sínum. Að hennar mati eru samtökin að reyna að láta það hljóma eins og Sólveig sé óvinur kvenna af erlendum uppruna. Sólveig segir þá staðhæfingu illskiljanlega. 

„Ég er einfaldlega að segja frá stöðunni eins og hún er. Aðstæður í lífi verka og láglaunafólks eru með þeim hætti á okkar dögum að við bókstaflega stöndum í baráttunni um brauðið. Ef að Efling myndi setja það fram sem grundvallarkröfu að vinnuaflið væri í íslensku-námi á vinnutíma er það 100% öruggt að við þyrftum að gefa eftir launakröfur,“ skrifar Sólveig.

Erlendar konur spili stórt hlutverk hjá Eflingu

Þá bendir Sólveig á skýrslu Kjaratölfræðinefndar sem var gefin út vorið 2021 þar sem kemur fram að konur og innflytjendur hækkuðu mest um laun á þeirri kjaralotu. Sólveig segir það vera þökk sé: „Herskárrar baráttu Eflingar“.

„Í þeim árangri áttu aðfluttar Eflingar-konur stóran þátt, eins og ég hef ítrekað sagt frá og bent á. En vegna verðbólgu, vaxtahækkana og hörmulegra hagstjórnarmistaka og auðmannadekurs valdastéttarinnar þegar kemur að húsnæðismálum er þessi árangur á góðri leið með að hverfa. Skilur fólk ekki hvar fókus okkar þarf og á að vera?

Í lokin ítrekar Sólveig að hún standi ekki gegn þróun á vinnumarkaði og biðlar til fólks að hugsa sig tvisvar um. 

Fólk ætti kannski að hugsa sig um einu sinni eða tvisvar áður en að það gerir mér upp sakir um að standa gegn gagnvirkri aðlögun í samfélaginu og þróun á vinnumarkaði almennt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka