„Algjör umbylting á atvinnuástandi“

Bjarni Benediktsson í morgun, þegar fjárlagafrumvarpið var kynnt.
Bjarni Benediktsson í morgun, þegar fjárlagafrumvarpið var kynnt. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, segir að náðst hafi góður árangur í ríkisfjármálum í gegnum heimsfaraldurinn sem hafi síðan skilað sér í góðri viðspyrnu, bæði heimila og fyrirtækja. 

Spár gera ráð fyrir því að landsframleiðsla fyrir árið 2023 verði 120 milljörðum meiri en það sem búist var við fyrir tveimur árum síðan. Samhliða því hafi atvinnuleysi dregist saman. Nú sé það orðið á pari við það sem var uppi fyrir heimsfaraldur, ef ekki betra. 

Þetta kom fram í máli hans í morgun þegar hann kynnti fjár­laga­frum­varpi fyr­ir árið 2023.

„Það er í raun og veru algjör umbylting á atvinnuástandi. Þegar atvinnuleysi er mikið, fara mjög háar fjárhæðir í atvinnuleysisbætur og það kemur minna inn í tryggingagjaldið.

En hins vegar þegar að atvinnuleysi lækkar, þá þarf að greiða minna út af atvinnuleysisbótum og fleiri taka þátt í að greiða staðgreiðslu og tryggingagjaldið tekur við sér – sem er einn lykilskattstofn ríkisins. Við erum á miðju ári komin undir meðaltal atvinnuleysis frá árinu 2000. Atvinnustigið er bara gott á Íslandi um þessar mundir,“ sagði Bjarni í morgun þegar fjárlagafrumvarpið var kynnt.

Gríðarlegur árangur á alla mælikvarða

Þá nefnir Bjarni einnig kaupmáttaraukningu í landinu en tekjur á mann hafa aukist um 60 þúsund krónur á mánuði umfram verðbólgu frá árinu 2016.

„Þetta er held ég í sögulegu samhengi á alla mælikvarða gríðarlegur árangur. Hér hefur margt farið saman. Það hefur verið stöðug verðbólga lengst af en laun hafa líka hækkað verulega. Við gerðum tekjuskattsbreytingar sem hafa gagnast tekjulágum hópum sérstaklega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert