Andlát: Anna Guðný Guðmundsdóttir

Anna Guðný Guðmundsdóttir.
Anna Guðný Guðmundsdóttir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari er látin, 64 ára að aldri.

Anna Guðný fæddist í Reykjavík 6. september 1958. Foreldrar hennar eru  hjónin Aagot Árnadóttir og Guðmundur Þ. Halldórsson búsett í Mosfellsbæ. Hún gekk í Álftamýrarskóla og lauk stúdentsprófi frá MH 1977. Anna Guðný stundaði tónlistarnám við Barnamúsíkskólann, nú Tónmenntaskólann og síðan við Tónlistarskólann í Reykjavík og brautskráðist þaðan 1979. Hún stundaði framhaldsnám við Guildhall School of Music í Lundúnum og lauk Post Graduate Diploma-gráðu. 

Anna Guðný kom  fram sem píanóleikari um árabil, lék kammertónlist, var meðleikari og einleikari, kom reglulega fram á Listahátíð í Reykjavík og lék á tónlistarhátíðunum Reykjavík Midsummer Music og Reykholtshátíð. Hún var píanóleikari Kammersveitar Reykjavíkur og lék með henni víða um heim og lék inn á um 30 geisladiska með ýmsum listamönnum. Hún lék með Karlakór Reykjavíkur á vortónleikum hans í hartnær 30 ár. Þá lék hún með hljómsveitinni Salon Islandus, starfaði hún við tónlistardeild Listaháskóla Íslands frá stofnun 2001-2005 og var fastráðin við Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 2005.

Anna Guðný var útnefnd bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2002, var þrisvar tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna og hlaut þau 2008 sem flytjandi ársins fyrir heildarflutning á tónverkinu Tuttugu tillit til Jesúbarnsins eftir Oliver Messiaen. Í vor hlaut hún heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna. Þá var hún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní á þessu ári fyrir framlag til tónlistarflutnings. 

Eiginmaður Önnu Guðnýjar er Sigurður Ingvi Snorrason, klarínettuleikari. Börn þeirra eru fjögur, Marian, Daníel, Ásta og Guðmundur Snorri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert