Forsvarsmenn Tækniskólans segja að við fyrstu athugun megi fullyrða að netárásin sem var gerð á skólann í liðinni viku hafi verið vel ígrunduð og alvarleg.
Þetta kemur fram á vef skólans, en eftirfarandi upplýsingum var komið á framfæri eftir stöðufund með tölvudeild Tækniskólans.
Þá er tekið fram, að tölvudeild skólans, í samstarfi við netöryggissérfræðinga, hafi unnið dag og nótt við að takmarka skaðann.
„Netöryggisvarnir Tækniskólans eru góðar en allur er varinn góður og má búast við nokkrum dögum þar til netkerfi skólans verður komið í samt lag,“ segir í tilkynningunni.